Flutningsskilmálar Icelandair fyrir farþega og farangur
Þessir flutningsskilmálar gilda um samskipti milli farþega og flugrekanda við flutning í flugvél gegn framvísun farseðils með kóða flugrekanda fyrir viðkomandi flug eða hluta flugs. Réttindum og skyldum farþega gagnvart flugrekanda hvað þetta varðar, sem og flugrekanda gagnvart farþega, er lýst í flutningsskilmálunum. Flugrekandi ráðleggur farþeganum að lesa flutningsskilmálana vandlega, þar sem þar er meðal annars lýst ýmsum takmörkunum, svo sem um takmörk bótaábyrgðar flugrekanda gagnvart farþeganum vegna skemmda og tafa sem hafa áhrif á farþegann og/eða farangur hans. Um innanlandsflug gilda ákvæði um takmörkun bótaábyrgðar í lögum um loftferðir. Ef ábyrgðarmörk flugrekanda fullnægja ekki þörfum farþega er mælt með einstaklingstryggingu.
Við lestur þessara skilmála skal hafa eftirfarandi í huga:
„SAMKOMULAG UM VIÐKOMUSTAÐI“ merkir þá staði, nema brottfararstað og ákvörðunarstað, sem tilgreindir eru á farseðlinum eða er birtir í tímaáætlunum flugrekenda sem áætlaðir viðkomustaðir á flugleiðinni.
„VIÐURKENNDUR UMBOÐSMAÐUR“: sölufulltrúi farþega sem flugrekandi hefur tilnefnt sem fulltrúa sinn í sölu á flugþjónustu fyrir flugrekanda.
„FARANGUR“ merkir persónulegar eigur farþega sem hann tekur með sér í ferðina. Ef annað er ekki tekið fram felst í því bæði innritaður og óinnritaður farangur.
„FARANGURSÁVÍSUN“ merkir þá hluta farseðilsins sem tengjast flutningi á innrituðum farangri.
„AUÐKENNISMERKI FYRIR FARANGUR“ merkir skjal sem er eingöngu gefið út til auðkenningar á innrituðum farangri.
„FLUGREKANDI“ merkir flugrekandann sem gefur farseðilinn út og alla flugrekendur sem flytja farþegann og/eða farangur farþega samkvæmt farseðlinum.
„REGLUR FLUGREKANDA“ merkir reglur, aðrar en þessa skilmála, sem flugrekandi birtir og eru í gildi á útgáfudegi farseðils, um flutning farþega og/eða farangurs og skulu innihalda öll gjöld sem flugrekandi kann að innheimta.
„INNRITAÐUR FARANGUR“ merkir farangur sem flugrekandi fer einn með forræði yfir og flugrekandi hefur gefið út farangursávísun fyrir.
„INNRITUNARFRESTUR“ merkir tímamörk þess flugvallar sem flugfélagið tilgreinir og þar sem farþegi þarf að hafa lokið innritun og, ef við á, fengið brottfararspjald.
„TENGIMIÐI“merkir farseðill sem farþeginn hefur fengið útgefinn í tengslum við annan farseðil, sem í sameiningu mynda einn samning um flugþjónustu.
„SAMNINGUR“ merkir eftirfarandi gerninga eftir því sem við á:
Samningur um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa, undirritaður í Montreal 12. maí 1929;
Varsjársamningurinn, eins og honum var breytt í Haag 28. september 1955;
Varsjársamningurinn, eins og honum var breytt með viðbótarbókun nr. 1 frá 1975;
Varsjársamningurinn, eins og honum var breytt í Haag og með viðbótarbókun nr. 2 við Montreal-samninginn (1975);
Varsjársamningurinn, eins og honum var breytt í Haag og með viðbótarbókun nr. 4 frá Montreal (1975);
samningur um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa, undirritaður í Montreal 28. maí 1999.
„MIÐI“ þýðir bæði prentað afrit af flugmiða og rafrænn flugmiði, sem veitir nafngreindum farþega rétt til að ferðast með tilteknu flugi sem tilgreint er á honum.
„TJÓN“ nær yfir dauðsfall, meiðsli, seinkun, tap, hlutatjón eða annað tjón, hvers eðlis sem er, sem verður vegna eða í tengslum við flutning eða aðra þjónustu sem flugrekandi framkvæmir.
„DAGAR“ merkir almanaksdaga, þar með talda alla sjö daga vikunnar, að því tilskildu að ekki skal telja með daginn þegar tilkynning er send; og að því er varðar gildistíma farseðils, daginn sem farseðillinn er gefinn út eða flugið hófst.
„RAFRÆNN FLUGMIÐI“: merkir rafrænan flugmiða eða annað gildisskjal sem er vistað í gagnagrunni flugrekanda.
„RAFRÆNN FARSEÐILL“ merkir ferðaáætlunina/kvittunina sem er gefin út af eða fyrir hönd flugrekanda, rafræna farseðilinn og, ef við á, brottfararspjaldið.
„FLUGMIÐI“ merkir þann hluta farseðilsins sem er merktur „gildir fyrir far“, en rafræna flugmiðann ef um er að ræða rafrænan farseðil, og tilgreinir þá staði sem farþegi á rétt á að vera fluttur á milli.
„FERÐAÁÆTLUN/KVITTUN“ merkir skjal eða skjöl sem eru hluti af farseðlum sem inniheldur nafn farþega, flugupplýsingar og tilkynningar.
„FARÞEGI“ merkir einstaklingur, að undanskildum áhafnarmeðlimum, sem er fluttur eða mun verða fluttur um borð í flugvél með samþykki flugrekanda.
„FARÞEGAMIÐI“ eða „FARÞEGAKVITTUN“ merkir þann hluta farseðilsins sem er gefinn út af eða fyrir hönd flugrekanda og merktur sem slíkur og sem farþega ber að hafa í sinni vörslu.
„SDR“ stendur fyrir „Special Drawing Right“, eða „sérstök dráttarréttindi“, sem er samsett gjaldmiðilseining sem er opinber viðskiptagjaldmiðill Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
„MILLILENDING“ merkir áætluð viðkoma á ferð farþega á milli brottfararstaðar og ákvörðunarstaðar í að lágmarki 24 klukkustundir.
„TAXTI“ merkir birt verð, gjöld og/eða tengdir flutningsskilmálar flugfélags sem skráð eru, þegar þess er krafist, hjá viðeigandi yfirvöldum.
„FARSEÐILL“ merkir annaðhvort skjalið með yfirskriftinni „Farþegamiði og farangursávísun“ eða rafræni miðinn, í öllum tilvikum gefið út af eða fyrir hönd flugrekanda, og inniheldur viðeigandi samningsskilmála, tilkynningar og flugmiða.
„ÓINNRITAÐUR FARANGUR“ merkir allan farangur farþegans annan en innritaðan farangur.
2.1.1. Þessir flutningsskilmálar gilda um alla flutninga flugleiðis á farþegum og farangri, sem flugrekandi framkvæmir gegn gjaldi, nema samkvæmt því sem kveðið er á um í gr. 2.2 - 2.5.
2.1.2 Þessir skilmálar eiga einnig við um endurgjaldslausa flutninga eða flutninga með lækkuðu fargjaldi, nema að því marki sem flugrekandi hefur ákveðið annað í reglugerðum sínum eða í viðkomandi samningum, farseðlum eða farmiðum.
Ef flutningur er framkvæmdur í samræmi við leigusamning gilda þessir flutningsskilmálar aðeins að því marki sem þeir eru innleiddir með tilvísun eða á annan hátt í leigusamningnum eða á farseðlinum.
2.3.1 Fyrir suma þjónustuþætti hefur flugrekandi gert samkomulag við aðra flugrekendur um svokölluð „sameiginleg flugnúmer“. Þetta þýðir að þótt farþegi eigi bókun hjá tilteknum flugrekanda, og sé með farseðil þar sem nafn eða kennimerki flugrekandans er tilgreint sem flugrekandi, kann flugvélin að vera undir stjórn annars flugrekanda.
2.3.2 Sum flug okkar eru rekin samkvæmt samkomulagi við aðra flugrekanda sem stjórna flugvélum fyrir okkar hönd með því að nota nafnið okkar, einkennisfatnað okkar og kennimerki okkar (fyrirkomulag sem kallast „þjónustuleiga“). Ef þetta fyrirkomulag er fyrirhugað fyrir þitt flug verður þér tilkynnt um það við bókun (ef það er vitað). Þessir flutningsskilmálar eiga við um flugið þitt.
Þessi flutningsskilmálar gilda nema þeir stangist á við fargjaldaskrá flugrekanda eða gildandi lög sem ekki er hægt að hnekkja með samkomulagi aðilanna, en í þeim tilvikum skulu slíkar fargjaldaskrár eða lög gilda.
Ef eitthvert ákvæði í flutningsskilmálum þessum telst ógilt samkvæmt einhverjum gildandi lögum skulu önnur ákvæði engu að síður halda gildi sínu.
3.1.1 Farseðillinn telst afgerandi sönnun um flutningssamning flugrekanda og farþegans sem tilgreindur er á farseðlinum. Flugrekandinn tryggir aðeins farþeganum sem er tilgreindur á farseðlinum flutning og farþeganum kann að vera gert að framvísa viðeigandi skilríkjum.
3.1.2 Ekki er hægt að framselja farseðilinn.
3.1.3 Sumir farseðlar eru seldir á afsláttarverði sem er hugsanlega ekki hægt að fá endurgreitt, að hluta eða í heild. Farþeginn ætti að velja það fargjald sem hentar best þörfum hans hverju sinni. Farþegi kann einnig að vilja tryggja að hann hafi fullnægjandi tryggingu sem nær yfir tilvik þar sem fella þarf farseðilinn úr gildi.
3.1.4 Farseðillinn er og verður ávallt eign flugrekandans sem gefur hann út.
3.1.5 Farþegi á ekki rétt á að ferðast með flugi nema hann framvísi gildum farseðli sem inniheldur flugmiða fyrir viðkomandi flug og alla aðra ónotaða flugmiða og farþegamiðann, nema um sé að ræða rafrænan miða. Farþeginn á auk þess ekki rétt á flutningi ef framvísaður farseðill er skemmdur eða hefur verið breytt af öðrum en flugrekanda eða viðurkenndum umboðsmanni. Þegar um er að ræða rafrænan farseðil á farþegi ekki rétt á flutningi með flugi nema hann framvísi gildum skilríkjum og gildur rafrænn farseðill hafi verið gefinn út á réttan hátt í nafni farþegans.
3.1.6(a) Ef farþegi skemmir verulega eða týnir farseðli (eða hluta hans) eða ef farþegi fær ekki afhentan farseðil sem inniheldur farþegamiðann og alla ónýtta flugmiða þegar farþegi óskar þess, og ef flugrekandi hefur gefið út téðan farseðil mun flugrekandi skipta slíkum farseðli út (eða hluta hans) með því að gefa út nýjan farseðil, að því tilskildu að fyrir liggi gögn sem auðvelt er að sannreyna um að farseðill, sem gildir fyrir viðkomandi flug eða flugferð/ir, hafi verið gefinn út á tilskilinn hátt og farþegi undirriti samning um að endurgreiða flugrekanda allan kostnað og tap, allt að andvirði upprunalega farseðilsins, sem telst nauðsynlegur og sanngjarn útlagður kostnaður flugrekanda vegna misnotkunar á farseðlinum. Flugrekandi mun ekki krefjast endurgreiðslu frá farþega vegna slíks tjóns sem áskapast af eigin vanrækslu flugrekanda. Heimilt er að innheimta sanngjarnt umsýslugjald fyrir þessa þjónustu, nema tapið eða skemmdirnar hafi orðið vegna vanrækslu af hálfu flugrekandans eða einhverra viðurkenndra umboðsmanna hans.
3.1.6(b) Ef slík sönnunargögn liggja ekki fyrir eða farþegi undirritar ekki slíkan samning getur flugrekandi krafist greiðslu sem nemur fullu verði farseðils fyrir nýjan farseðil, með fyrirvara um endurgreiðslu ef og þegar flugrekandi telur fullsannað að týndi eða skemmdi farseðillinn hafi ekki verið notaður áður en gildistími hans rann út. Ef farþegi finnur upprunalega farseðilinn áður en gildistími hans rennur út skal farþegi afhenda flugrekanda farseðilinn og verður þá gengið frá framangreindri endurgreiðslu á þeim tíma.
3.1.7 Farseðill er verðmætt skjal og farþega ber að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að hann týnist ekki eða verði stolið.
3.2.1 Ef annað er ekki tekið fram á farseðli, í þessum flutningsskilmálum, eða í viðeigandi fargjaldaskrá (sem getur takmarkað gildi farseðilsins, en þá er takmörkunin tilgreind á farseðlinum) er gildistími farseðils sem hér segir:
3.2.1.1 (a) Eitt ár frá útgáfudegi, eða
3.2.1.1 (b) Farseðillinn gildir í eitt ár frá fyrsta ferðadeginum, með fyrirvara um að fyrsti ferðadagurinn sé innan eins árs frá útgáfudegi.
3.2.2 Ef farþegi getur ekki vegna veikinda haldið áfram ferð innan gildistíma farseðils getur flugrekandi framlengt gildistíma farseðilsins til þess dags þegar farþegi er fær um að ferðast, eða til fyrsta flugs eftir slíkan dag, frá þeim stað þar sem ferðin hefst að nýju, svo fremi sem sæti er laust í þeim þjónustuflokki sem fargjaldið hefur verið greitt fyrir. Slík veikindi þarf að staðfesta með læknisvottorði. Þegar flugmiðar sem eftir eru á farseðli eða, ef um er að ræða rafrænan farseðil, rafræni flugmiðinn, eru með einni eða fleiri millilendingum er ekki hægt að framlengja gildistíma slíks farseðils lengur en í þrjá mánuði frá þeim degi sem tilgreindur er í gögnum. Ef farþegi er eigandi að farseðli á sérstöku fargjaldi er frestur til framlengingar að hámarki 7 dagar, nema slíkt sé óheimilt samkvæmt reglunum sem gilda um fargjaldið sem var greitt. Við slíkar aðstæður mun flugrekandi á sama hátt framlengja gildistíma farseðla náinna fjölskyldumeðlima sem ferðast með farþeganum.
3.2.3 Ef farþegi andast á meðan á ferð stendur má breyta farseðlum þeirra sem ferðast með farþeganum með því að fella niður lágmarksdvöl eða framlengja gildistímann. Ef andlát verður í nánustu fjölskyldu farþega sem hefur hafið ferð má með sama hætti breyta gildistíma farseðla farþegans og náinna fjölskyldumeðlima sem ferðast með farþeganum. Allar slíkar breytingar skulu gerðar gegn framvísun gilds dánarvottorðs og skal slík framlenging ekki gilda lengur en fjörutíu og fimm (45) daga frá andláti.
3.3.1 Farseðillinn sem farþeginn hefur keypt gildir aðeins fyrir flutninginn eins og hann er sýndur á farseðlinum, frá brottfararstað með gegnumferð um alla samþykkta viðkomustaði að lokaákvörðunarstað. Fargjaldið sem greitt er miðast við fargjaldaskrá flugrekanda og er greitt fyrir flutninginn samkvæmt því sem fram kemur á farseðlinum. Fargjaldið er mikilvægur hluti samningsins milli farþega og flugrekanda. Farseðill verður ekki tekinn gildur og missir gildi sitt ef allir hlutar flugmiðans eru ekki notaðir í þeirri röð.
3.3.2 Vilji farþegi breyta einhverjum liðum í flutningnum, þar á meðal yfirfærslu fargjalds úr ferð báðar leiðir í ferð aðra leið, verður hann að hafa samband við flugrekanda minnst þremur klukkustundum fyrir áætlaðan brottfarartíma fyrsta flugs á miðanum. Fargjaldið fyrir nýja flutninginn verður reiknað samkvæmt fargjaldareglunni og farþeganum gefinn kostur á að samþykkja nýja verðið eða halda sig ella við flutninginn sem tilgreindur er á upprunalega farseðilinn.
3.3.3 Hver flugmiði á farseðli farþegans verður samþykktur fyrir flutning í tilteknum þjónustuflokki á deginum þegar flugsæti var bókað.
3.3.4 Hafðu í huga að ef farþegi mætir ekki í flug án þess að hafa haft samband við flugfélagið fyrirfram fellir flugrekandi niður heimferðina og/eða bókanir á framhaldsflugi. Hægt er að endurútgefa og eða endurgreiða miða sem felldur hefur verið niður vegna þessa fyrir fargjöld sem fást endurgreidd að fullu og/eða fargjöld sem eru undanþegin breytingargjöldum
Nafn flugrekanda verður hugsanlega birt á farseðlinum í styttri mynd, sem tveggja bókstafa kennimerki, eða á annan hátt. Heimilisfang skal talið vera brottfararflugvöllur sem er birtur hinum megin við fyrstu styttu útfærslu á heiti flugrekanda í reitnum „Flugrekandi“ á farseðlinum, eða ef um er að ræða rafrænan farseðil, eins og tilgreint er fyrir fyrsta hluta flugleiðarinnar í ferðaáætluninni/kvittuninni.
Fargjöld gilda aðeins um flutning frá flugvelli á upprunastað til flugvallar á ákvörðunarstað, nema annað sé sérstaklega tekið fram. Ferðir milli flugvalla og milli flugvalla og flugstöðva innanbæjar eru ekki innifaldar í fargjaldi, nema annað sé sérstaklega tekið fram. Fargjald verður reiknað út í samræmi við fargjaldaskrá flugrekanda sem er í gildi á greiðsludegi farseðils vegna ferða á tilteknum dagsetningum og samkvæmt þeirri ferðaáætlun sem tilgreind er á farseðli. Ef farþegi breytir ferðaáætlun eða ferðadögum getur það haft áhrif á fargjaldið sem á að greiða.
Fargjöld fyrir tiltekna hluta flugs geta verið mismunandi eftir framboði á uppruna- og áfangastað. Ef flughlutar eru seldir aðskildir frá uppruna- og áfangastað sem „tengdir hlutar“ varðar það sektum sem ber að greiða innan 14 daga. Icelandair áskilur sér rétt, að eigin ákvörðun, til að fella niður bókun ef um er að ræða brot á reglum um tengda hluta.
Farþegi skal greiða viðeigandi skatta og gjöld sem lögð eru á af stjórnvöldum eða öðru yfirvaldi, eða rekstraraðila flugvallar. Við kaupin fær farþeginn upplýsingar um skatta og gjöld sem ekki eru innifalin í fargjaldinu, en flestur slíkur kostnaður er birtur sérstaklega á farseðlinum. Skattar og gjöld sem lögð eru á flugferðir eru taka tíðum breytingum og hægt er að leggja slíkt á eftir útgáfudag farseðils. Ef hækkun verður á sköttum eða gjöldum sem tilgreind eru á farseðli er farþega skylt að greiða mismuninn. Ef nýr skattur eða gjald er lagt á, jafnvel eftir útgáfu farseðils, er farþeginn ennfremur skuldbundinn til að greiða mismuninn. Á sama hátt á farþegi rétt á endurgreiðslu ef skattar eða gjöld, sem farþegi hefur greitt flugrekanda við útgáfu farseðils, eru felld niður eða lækkuð og eiga ekki lengur við, en þá getur farþegi haft samband við flugrekanda til að fá endurgreiðslu. Ef farþegi notar ekki farseðilinn á farþegi rétt á að fá endurgreiddan opinberan skatt og/eða flugvallargjöld (athugið að þetta er ekki bókunargjald, en slíkt gjald er óendurkræft).
Fargjöld, skattar og gjöld eru greidd í gjaldmiðli landsins þar sem farseðillinn er gefinn út, nema annar gjaldmiðill sé tilgreindur af flugrekanda eða viðurkenndum umboðsmanni hans, við greiðslu eða áður en greiðsla á sér stað (t.d. vegna þess að gjaldmiðillinn á staðnum er ekki skiptanlegur). Flugrekandi getur, að eigin geðþótta, tekið við greiðslu í öðrum gjaldmiðli.
5.1.1 Flugrekandi eða viðurkenndir umboðsmenn hans skrá bókunina eða bókanirnar. Ef þess er óskað lætur flugrekandi farþeganum í té skriflega staðfestingu á bókuninni eða bókununum.
5.1.2 Tiltekin fargjöld eru með skilmálum sem takmarka eða útiloka rétt farþega til að breyta eða hætta við bókanir eða fara fram á endurgreiðslu.
Ef farþegi hefur ekki greitt fyrir farseðilinn áður en tilgreind tímamörk farseðils rennur út, í samræmi við tilmæli flugrekanda eða viðurkenndra umboðsmanna hans, er flugrekanda heimilt að afturkalla bókunina.
Farþeginn staðfestir að flugrekanda hafi verið veittar persónuupplýsingar í þeim tilgangi að bóka farseðil, kaupa farseðil, fá viðbótarþjónustu, þróa og veita þjónustu sem auðveldar innflutning fólks og inngönguferli og gera slík gögn aðgengileg opinberum stofnunum. Í þessu skyni skal flugrekandi heimila farþegum að geyma og nota slík gögn og senda þau til eigin skrifstofa, viðurkenndra umboðsmanna, opinberra stofnana, annarra flugrekanda eða veitenda ofangreindrar þjónustu.
Flugrekandi leitast við að standa við sætisbókanir sem gerðar eru fyrirfram, ef þess er kostur, en getur þó ekki ábyrgst úthlutun tiltekins sætis. Flugrekandi áskilur sér rétt til að úthluta eða endurúthluta sætum hvenær sem er, jafnvel eftir að farþegi hefur gengið um borð í flugvélina. Slíkt getur reynst nauðsynlegt af rekstrarlegum ástæðum eða öryggisástæðum.
Bókanir á framhaldsflugi eða heimferðarflugi kunna að vera háðar skilyrði um að endurstaðstaðfesta bókanirnar innan tiltekinna tímamarka sem tilgreind eru í reglum flugrekanda. Ef ekki er farið að slíkum kröfum kann það að leiða til afturkallana á hvaða bókun sem er, hvort sem er fyrir framhaldsflug eða heimferð.
Ef farþegi nýtir ekki bókun og lætur ekki vita af því getur flugrekandi afturkallað eða óskað eftir niðurfellingu á bókunum á framhaldsflugi eða heimferðarflugi.
Farþegi skal koma á innritunarstað og að brottfararhliði flugrekanda nægilega tímanlega fyrir brottfararflug til að unnt sé að ljúka öllum formsatriðum og brottfararferlum sem krafist er af stjórnvöldum og eigi síðar en á þeim tíma sem flugrekandi tilgreinir. Ef farþegi mætir ekki tímanlega á innritunarstað eða að brottfararhliði flugrekanda, eða virðist vera ranglega skráður og ekki ferðbúinn, getur flugrekandi afturkallað sætið sem var frátekið fyrir farþegann og mun ekki seinka fluginu. Flugrekandi er ekki ábyrgur gagnvart farþega vegna taps eða kostnaðar sem áskapast vegna vanefnda farþega á ákvæðum þessarar greinar.
Flugrekandi getur hafnað flutningi á farþega eða farangri farþega af öryggisástæðum eða ef flugrekandi, í framhaldi af réttmætri eigin ákvörðun, ákvarðar eftirfarandi:
7.1.1 Að slík aðgerð sé nauðsynleg til að fara að gildandi lögum, reglugerðum eða fyrirmælum í því ríki eða landi sem á að fljúga frá, til eða yfir hverju sinni.
7.1.2 Að flutningur á farþega eða farangri farþega gæti stofnað í hættu eða haft áhrif á öryggi, heilsu eða þægindi annarra farþega eða áhafnar.
7.1.3 Að tekið verði við farþegum með fötlun, eins og tilgreint er hér á eftir:
AÐSTOÐARMAÐUR VEGNA FÖTLUNAR NAUÐSYNLEGUR
Flugrekandi mun samþykkja skilgreiningu farþega með fötlun að því er varðar þörf fyrir aðstoð. Ef engin skilgreining á aðstoðarþörf liggur fyrir er viðkomandi skylt að ferðast með aðstoðarmann.
7.1.4 Andlegt eða líkamlegt ástand farþega, þ.m.t. skerðing vegna áfengis eða vímuefna, skapar hættu fyrir hann sjálfan, aðra farþega, áhöfn eða eigur.
7.1.5 Farþegi hefur orðið uppvís að slæmri hegðun í fyrri flugferð og flugrekandi hefur ástæðu til að ætla að slíkt athæfi gæti endurtekið sig.
7.1.6 Farþegi hefur neitað að gangast undir öryggisskoðun.
7.1.7 Farþegi hefur ekki greitt gildandi fargjald, skatta eða gjöld.
7.1.8 Farþegi virðist ekki hafa gild ferðaskilríki, reynir hugsanlega að leita inngöngu í land þar sem hann er í gegnumferð eða hefur ekki gild ferðaskjöl til inngöngu, hefur eyðilagt ferðaskjöl sín meðan á flugi stendur eða neitar að afhenda flugrekandanum ferðaskjöl sín gegn kvittun, þegar þess er óskað, eða flugrekandi hefur með öðrum hætti ástæðu til að ætla að farþega sé ekki heimilt að fara inn í ákvörðunarlandið eða annað land sem farþegi kann að vera í gegnumferð um.
7.1.9 Farþegi framvísar farseðli sem var aflað með ólögmætum hætti, var keyptur af öðrum aðila en flugrekanda eða viðurkenndum umboðsmönnum hans, eða hefur verið tilkynntur týndur eða stolinn, er falsaður eða farþegi getur ekki sannað að hann sé sá sem er tilgreindur á farseðlinum.
7.1.10 Farþegi hefur ekki uppfyllt kröfurnar sem settar eru fram í grein 3.3 hér að framan varðandi röð og notkun farseðils, eða farþegi framvísar farseðli sem hefur verið gefinn út eða breytt á einhvern hátt af öðrum en flugrekanda eða viðurkenndum umboðsmönnum hans, eða farseðillinn hefur verið eyðilagður.
7.1.11 Farþegi fylgir ekki fyrirmælum flugrekanda um öryggisráðstafanir.
7.2.1 Samþykki fyrir flutningi fylgdarlausra barna, einstaklinga með skerðingu, þungaðra kvenna, einstaklinga með sjúkdóma eða annarra sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda er háð fyrirfram gerðu samkomulagi við flugrekanda. Farþegum með fötlun, sem hafa tilkynnt flugrekanda um sérstakar þarfir við kaup á farseðli og sem flugrekandi hefur samþykkt, er óheimilt að neita um flug síðar á grundvelli slíkrar fötlunar eða sérstakra þarfa.
7.2.2 Hámarksfjöldi farþega með skerta hreyfigetu / sem þarfnast aðstoðar vegna fötlunar (einstaklinga með hreyfihömlun) er 10 farþegar í hverju flugi. Heildarfjöldi farþega með skerta hreyfigetu / sem þarfnast aðstoðar vegna fötlunar sem mega ferðast án aðstoðarmanns er tveir farþegar. Ef fleiri en tveir farþegar hafa skerta hreyfigetu / þarfnast aðstoðar vegna fötlunar þarf einn aðstoðarmann fyrir hvern slíkan farþega umfram tvo. Ef ferðast er sem hópur þarf einn aðstoðarmann fyrir hvern fimm farþega hóp. Engar sérstakar takmarkanir gilda fyrir einstaklinga sem eru blindir eða heyrnarlausir, en þegar ferðast er sem hópur þarf að hafa einn aðstoðarmann fyrir hvern fimm farþega hóp. Einn aðstoðarmann þarf fyrir hvern farþega sem hefur skerta hreyfigetu / þarfnast aðstoðar vegna fötlunar og þarf að nota sjúkrabörur. Slíkan aðstoðarmann þarf að tilgreina fyrir flugið. Hámarksfjöldi farþega sem hafa skerta hreyfigetu / þarfnast aðstoðar vegna fötlunar og þurfa að nota sjúkrabörur er tveir.
Hver farþegi má taka með sér tiltekið magn handfarangurs án endurgjalds, með fyrirvara um reglugerðir/skilmála og takmarkanir flugrekanda, sem má nálgast á www.icelandair.is og gegn beiðni.
Farþegi þarf að greiða gjald fyrir flutning á farangri umfram ókeypis farangursheimild. Verðskrá fyrir slíkan farangur er aðgengileg á www.icelandair.is og samkvæmt beiðni.
8.3.1 Farþegi má ekki hafa eftirfarandi með í farangri sínum:
8.3.1.1 Hlutir sem eru líklegir til að stofna flugvélinni eða fólki eða eignum um borð í henni í hættu, svo sem hlutir sem tilgreindir eru í tæknilegum leiðbeiningum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) um flutning á hættulegum varningi með flugi og í reglugerðum Alþjóðasambands flugfélaga (IATA) um flutning á hættulegum varningi og í reglugerðum um flugrekendur (frekari upplýsingar fást hjá flugrekanda sé þess óskað).
8.3.1.2 Hlutir sem bannað er að flytja samkvæmt gildandi lögum, reglugerðum eða fyrirmælum í hvaða ríki sem til stendur að fljúga frá, yfir eða til.
8.3.1.3 Lifandi dýr, með þeim undantekningum sem tilgreindar eru í gr. 8.9.
8.3.1.4 Hlutir sem flugrekandi telur að henti ekki til flutnings vegna þess að þeir eru hættulegir eða óöruggir eða vegna þyngdar, stærðar, lögunar eða eiginleika, eða eru brothættir eða þola illa geymslu, m.a. með tilliti til þeirra tegundar flugvélar sem verið er að nota. Hægt er að fá upplýsingar um hluti sem ekki má taka með, ef þess er óskað.
8.3.2 Skotvopn og skotfæri, önnur en til veiða og íþróttaiðkunar, er óheimilt að flytja sem farangur. Heimilt er að taka skotvopn og skotfæri til veiða og íþróttaiðkunar með sem innritaðan farangur. Skotvopn verða að vera óhlaðin og með öryggislæsinguna á og þeim verður að pakka á viðeigandi hátt. Flutningur skotfæra er háður reglum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og Alþjóðasambands flugfélaga (IATA), eins og tilgreint er í grein 8.3.1.1.
8.3.3 Heimilt er að taka með í innrituðum farangri, ef flugrekandi samþykkir slíkt, vopn svo sem forn skotvopn, sverð, hnífa og sambærilega hluti, en þessa hluti má ekki taka með í farþegarými flugvélarinnar.
8.3.4 Farþeganum er ráðlagt að hafa ekki með sér í innrituðum farangri reiðufé, lykla, skartgripi, verðmæta málma, lyf, viðkvæma hluti eða vörur sem þola illa geymslu, tölvur, farsíma, rafeindatæki til persónulegra nota, viðskiptabréf, verðbréf eða önnur verðmæti, viðskiptaskjöl, vegabréf og önnur skilríki eða sýnishorn skilríkja.
8.4.1 Með fyrirvara um gr. 8.3.2 og 8.3.3, mun flugrekandi neita að flytja þá hluti sem lýst er í gr. 8.3, og getur neitað frekari flutningi á slíkum hlutum ef þeir finnast í fórum farþega.
8.4.2 Flugrekandi getur neitað að hafa með sér farangur sem hann telur ekki henta til flutnings vegna stærðar, lögunar, þyngdar, innihalds, eiginleika eða vegna öryggis- eða rekstrarástæðna, eða til að tryggja þægindi annarra farþega. Hægt er að fá upplýsingar um hluti sem ekki má taka með, ef þess er óskað.
8.4.3 Flugrekandi getur neitað að taka við farangri í innritun nema honum sé rétt pakkað í ferðatöskur eða annað sem hentar til að tryggja öruggan flutning miðað við venjulega umhirðu og meðhöndlun. Það er á ábyrgð farþega að ganga rétt frá farangri. Hafi farþegi ákveðið að innrita farangur sem ekki er pakkað á réttan hátt er litið svo á að það sé gert á eigin ábyrgð og flugrekandi skal ekki bera ábyrgð á vandamálum sem rekja má til þess að farangri hafi verið illa pakkað.
8.4.4 Hafi ekki verið gerðar ráðstafanir fyrirfram hjá flugrekanda um flutning á farangri getur flugrekandi tekið þann farangur sem er umfram gildandi mörk farangursheimildar án endurgjalds með í öðru flugi síðar, án þess að farþega beri nokkrar bætur fyrir slíka töf.
Af öryggisástæðum getur flugrekandi farið fram á að farþegi leyfi líkamsleit og -skönnun, sem og leit, skönnun eða röntgenmyndatöku af farangri. Ef farþegi er ekki tiltækur er heimilt að leita í farangri í fjarveru hans til þess að ganga úr skugga um hvort hann hafi meðferðis eða hvort farangur innihaldi einhvern hlut sem lýst er í grein 8.3.1 eða einhver skotvopn, skotfæri eða vopn, sem flugrekandi hefur ekki verið upplýstur um, í samræmi við grein 8.3.2 eða 8.3.3. Ef farþegi neitar að verða við slíkri beiðni getur flugrekandi neitað að flytja farþegann og farangurinn. Ef leit eða skönnun veldur farþega tjóni, eða röntgenmynd eða skönnun veldur tjóni á farangri viðkomandi ber flugrekandi ekki ábyrgð á slíku tjóni nema það sé vegna mistaka eða vanrækslu flugrekanda.
8.6.1 Eftir afhendingu til flugrekanda á farangri sem á að innrita skal flugrekandi teljast hafa forræði yfir farangrinum og skal gefa út auðkennismerki fyrir hvern innritaðan farangurshlut.
8.6.2 Á innrituðum farangri skal vera áfest merking með nafni farþega og öðrum persónuauðkennum. Þetta þarf að merkja með skýrum hætti, bæði innan og utan á farangri. Tilgreina þarf fullt nafn, heimilisfang, símanúmer og netfang.
8.6.3 Innritaður farangur sem er innan leyfðra marka verður ævinlega fluttur með sömu flugvél og farþeginn, ef þess er kostur, nema flugrekandi ákveði af öryggis- eða rekstrarástæðum að flytja farangurinn með öðru flugi. Ef innritaður farangur er fluttur með síðara flugi sér flugrekandi um að koma honum í hendur farþega, nema gildandi lög krefjist þess að farþegi sé viðstaddur tollafgreiðslu.
Flugrekandi tekur enga ábyrgð á viðkvæmum eða verðmætum hlutum eða hlutum sem þola illa geymslu; þar á meðal eru:
a) Viðskiptaskjöl, vegabréf og önnur persónuskilríki eða sýnishorn
b) Blautur fatnaður eða aðrir blautir hlutir sem geta skemmt annan farangur
c) Allir brothættir eða viðkvæmir hlutir (t.d. glervörur, sjónaukar)
d) Matvæli eða annað sem þolir illa geymslu (allir hlutir með „best fyrir“ dagsetningu)
e) Hlutir sem er ekki pakkað á fullnægjandi hátt (t.d. brimbretti, vindsæng, skíði, reiðhjól, barnakerrur eða barnavagnar)
f) Hvers konar ílát og flöskur sem innihalda vökva eða krem
g) Allir hlutir sem festir eru utan á tösku og týnast eða skemmast af þeim sökum
h) Allir hlutir sem farþegi tekur með sér inn í farþegarými flugvélarinnar
i) Allt afleitt tjón vegna taps, rangrar umgengni eða skemmda á farangri farþega.
Að pakka viðkvæmum hlutum niður í venjulega innritunartösku telst ekki vera rétt pökkun og fellur því undir fyrirvara um ábyrgðartakmarkanir.
Barnavögnum og -kerrum þarf annaðhvort að pakka í glært, þykkt plast eða í poka/tösku, fjarlægja hjól ef þess er kostur og ekki innrita aðra hluti með vagninum eða kerrunni.
Reiðhjólum verður annaðhvort að pakka í glært, þykkt plast, sérstakan pappakassa fyrir reiðhjól eða poka/tösku.
Bakpoka og annan farangur með lausum reimum og hlutum sem festir eru utan á þarf að setja í glæran, þykkan plastpoka.
Hljóðfæri verða að vera í harðri tösku en mjúkir pokar eða töskur teljast ekki fullnægjandi pökkun fyrir hljóðfæri.
Glærir, þykkir plastpokar af réttri gerð eru til sölu á flestum brottfararstöðvum okkar. Töskur frá www.airshells.com teljast vera rétt pökkun.
Barnakerrur, barnavagnar, barnabílstólar, skíðabúnaður fyrir börn, golfbúnaður, hjólastólar, hjólbarðar, stangveiðibúnaður, köfunarbúnaður, vatnaskíðabúnaður, brimbretti/drekabretti, vindbretti, vopn og skotfæri, hljóðfæri og brothætt listaverk teljast ekki venjulegur farangur. Icelandair mælir með því að þess konar hlutum sé pakkað þannig að þeir verði ekki fyrir skemmdum við flutning.
Hver farþegi ber fulla ábyrgð á að pakka farangri sínum þannig að innihaldið verði ekki fyrir skemmdum. Farþegi er ábyrgur fyrir skemmdum sem verða á búnaði flugvélarinnar eða farangri annars farþega ef flaska sem inniheldur vökva í innrituðum farangri brotnar. Icelandair tekur ekki ábyrgð á tjóni á innihaldi sem verður vegna brotinnar flösku, túpu eða annars íláts.
Icelandair mælir eindregið með því að farþegar kaupi ferðatryggingu vegna einhverra ofangreindra atriða.
Allan innritaðan farangur skal merkja greinilega með nafni, netfangi, símanúmeri og heimilisfangi.
Ábyrgð vegna taps, seinkunar eða skemmds farangurs er takmörkuð nema hærra verð sé gefið upp fyrirfram og viðbótargjöld greidd. Ekki er heimilt að tilgreina verðmat umfram raunvirði fyrir tilteknar gerðir hluta.
8.7.1 Farangur sem farþegi tekur með sér inn í flugvélina verður að komast fyrir undir sætinu fyrir framan farþegann eða í lokuðu geymsluhólfi í farþegarými flugvélarinnar. Ef ekki er hægt að geyma farangurinn á þennan hátt, hann er of þungur eða hann er af einhverjum ástæðum talinn ótraustur verður að fara með hann sem innritaðan farangur. Flugrekandi hefur tilgreint hámarksstærðir og þyngd fyrir farangur sem tekinn er með sem handfarangur um borð í flugvélina. Slíkar upplýsingar eru aðgengilegar, ef þess er óskað. Aðrir skilmálar kunna að gilda ef annar flugrekandi annast flugið. Upplýsingar um þessa skilmála fást hjá flugrekanda sem annast flugið.
8.7.2 Hlutir sem ekki henta til flutnings í farmrými (svo sem viðkvæm hljóðfæri og þess háttar) og sem uppfylla ekki kröfurnar í grein 8.7.1 hér að framan verða aðeins samþykktir til flutnings í farþegarými ef farþegi hefur tilkynnt um slíkt fyrirfram og leyfi hefur verið veitt af hálfu flugrekanda. Farþeginn gæti þurft að greiða sérstakt gjald fyrir þessa þjónustu.
8.8.1 Með fyrirvara um grein 8.6.3 ber farþega að sækja innritaðan farangur um leið og hann er gerður aðgengilegur á áfangastað eða millilendingarstað. Sæki farþegi farangurinn ekki innan hæfilegs frests er flugrekanda heimilt að innheimta gjald af farþeganum. Ef ekkert tilkall er gert til innritaðs farangurs innan þriggja (3) mánaða frá þeim tíma sem hann er tilbúinn til afhendingar er flugrekanda heimilt að farga honum án bótaábyrgðar.
8.8.2 Aðeins handhafi farangursávísunar og kennimerkis á tösku hefur rétt á að fá innritaðan farangur afhentan.
8.8.3 Ef aðili sem gerir kröfu til innritaðs farangurs getur ekki framvísað farangursávísuninni og auðkennt farangurinn með kennimerki farangurs mun flugrekandi þá aðeins afhenda slíkum aðila farangurinn að því gefnu að hann framvísi gagnvart flugrekanda staðfestingu á rétti sínum til farangursins.
8.9.1 Ef flugrekandi samþykkir að flytja dýr farþegans verður það gert samkvæmt eftirfarandi skilmálum:
8.9.2 Farþegi skal ganga úr skugga um að dýr svo sem hundar, kettir, tamdir fuglar og önnur gæludýr séu í viðeigandi búrum og að þeim fylgi gild heilbrigðisvottorð og bólusetningarvottorð, komuleyfi og önnur skjöl, sem krafist er í innflutningslöndum eða löndum sem farið er gegnum; að öðrum kosti verða dýr ekki samþykkt til flutnings. Slíkur flutningur getur verið háður viðbótarskilmálum sem flugrekandi tilgreinir og sem eru aðgengilegir ef þess er óskað.
8.9.3 Ef dýrið er samþykkt sem farangur skal það, ásamt búri og fóðri sem því fylgja, ekki falla undir ókeypis farangursheimild farþega heldur teljast umframfarangur sem farþeganum er skylt að greiða fyrir samkvæmt gildandi taxta.
8.9.4 Leiðsöguhundar, ásamt búrum og fóðri, sem ferðast með fötluðum farþegum verða fluttir endurgjaldslaust, auk venjulegrar ókeypis farangursheimildar, samkvæmt reglugerðum um flugrekendur, sem eru aðgengilegar ef þess er óskað.
8.9.5 Samþykki til flutnings á dýrum er háð því skilyrði að farþegi taki fulla ábyrgð á slíku dýri. Flugrekandi ber ekki ábyrgð á tjóni á eða tapi, veikindum eða dauða dýrs sem flugrekandi hefur samþykkt að flytja, nema flugrekandi hafi sýnt af sér gáleysi.
8.9.6 Flugrekandi ber enga bótaábyrgð vegna nokkurs dýrs sem ekki fylgja öll áskilin brottfarar- og komuleyfi og heilbrigðisvottorðskjöl, sem og önnur skjöl varðandi inngöngu eða för dýrsins um hvaða land, ríki eða landsvæði sem er og farþeginn sem ferðast með dýrið skal endurgreiða flugrekanda hvers konar sektir, kostnað, tap eða bótaábyrgðir sem flugrekandi hefur lagt á eða orðið fyrir vegna flutnings á dýrinu.
9.1.1 Flugtímarnir sem birtir eru í tímaáætlunum geta breyst frá birtingardegi fram til eiginlegs ferðadags. Flugrekandi ábyrgist ekki tímaáætlanir gagnvart farþegum og tímaáætlanir teljast ekki hluti af samningi farþega við flugrekanda.
9.1.2. Áður en flugrekandi samþykkir bókun farþega tilkynnir hann farþega um áætlaðan fartíma, sem gildir frá og með þeim tíma, og sú tímasetning verður sýnd á farseðlinum. Ef farþegi gefur upp réttar samskiptaupplýsingar leggur flugrekandi sig fram um að tilkynna farþeganum allar breytingar. Ef veruleg breyting er gerð á áætluðum fartíma eftir að farþegi hefur keypt miða sinn, og farþeginn sættir sig ekki við breytinguna, á farþeginn rétt á endurgreiðslu í samræmi við grein 10.2.
9.2.1 Flugrekandi gerir allar nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir seinkun á flutningi farþega og farangurs. Við beitingu slíkra ráðstafana, og til að koma í veg fyrir aflýsingu flugs, er flugrekanda í undantekningartilvikum heimilt að fá annan flugrekanda og/eða flugvél til að sjá um flugið fyrir sína hönd.
9.2.2 Ef flugi er aflýst eða seinkað býður flugrekandi farþegum aðstoð og bætur samkvæmt reglugerð EB 261/2004.
9.3.1 Til að geta tekið við eins mörgum farþegum og unnt er, og á grundvelli þeirrar reynslu að einhver hluti farþega mætir ekki í flugið sem þeir bóka, er flugrekanda heimilt að bóka fleiri sæti en rúmast í flugvélinni. Flest flugfélög hafa komið á fót endurgreiðslukerfi fyrir farþega með staðfestar bókanir sem er neitað að ganga um borð á óréttmætum forsendum vegna skorts á sætum. Flugrekandi kappkostar að útvega sæti sem staðfest bókun liggur fyrir um. Við val á farþegum til endurbókunar kallar flugrekandi fyrst eftir sjálfboðaliðum sem eru fúsir til að segja sig frá fluginu, með fyrirvara um öryggis- og/eða rekstrartakmarkanir á viðkomandi flugvelli.
9.3.2 Geti flugrekandi ekki tryggt afnot af áður staðfestu sæti skal flugrekandi bæta fjárhagstap þeirra farþega sem neitað var um far í samræmi við gildandi lög og reglur flugrekanda um bætur. Nánari upplýsingar varðandi bótareglur fást hjá flugrekanda.
9.3.3 Ef farþegi er með staðfesta bókun í ákveðnu flugi og honum er neitað um far eingöngu vegna yfirbókunar telst viðkomandi farþegi uppfylla skilyrði um bætur fyrir að vera neitað um flug, í samræmi við gildandi opinberar reglugerðir og/eða reglugerðir um flugrekendur.
9.3.4 Auk fjárhagsbóta til þeirra sem er neitað um að ganga um borð skal flugrekandi standa straum af sanngjörnum kostnaði við máltíðir og gistingu fram að næstu mögulegu brottför.
10.1.1 Flugrekandi endurgreiðir farseðil, eða einhvern ónotaðan hluta farseðils, í samræmi við gildandi fargjaldsreglur eða gjaldskrá, sem hér segir:
10.1.2 Ef ekki er kveðið á um annað í þessari grein skal flugrekandi endurgreiða þeim sem greitt hefur fyrir farseðilinn, gegn framvísun á fullnægjandi sönnun fyrir slíkri greiðslu.
10.1.3 Hafi annar en sá sem tilgreindur er á farseðli greitt fyrir farseðilinn og farseðillinn gefur til kynna að takmarkanir séu á endurgreiðslu skal flugrekandi einungis endurgreiða þeim sem greiddi fyrir farseðilinn.
10.1.4 Endurgreiðsla fer aðeins fram ef farseðli er framvísað til flugrekanda, sem og öllum ónotuðum flugmiðum, nema um glataðan farseðil sé að ræða.
10.2.1 Ef flugrekandi aflýsir flugferð, fer ekki flugferðina samkvæmt áætlun eða stoppar ekki á ákvörðunarstað eða millilendingarstað farþega, sem leiðir til þess að farþegi missir af tengiflugi sem hann á bókað á sama farseðli, skal upphæð endurgreiðslunnar vera sem hér segir:
10.2.1.1 Ef enginn hluti farseðilsins hefur verið nýttur skal upphæð endurgreiðslu jafngilda greiddu fargjaldi.
10.2.1.2 Ef hluti farseðilsins hefur verið nýttur skal endurgreiðsla ekki vera lægri en mismunurinn á greiddu fargjaldi og gildandi fargjaldi fyrir ferðalög milli ákvörðunarstaðanna sem farseðillinn var nýttur fyrir.
10.3.1 Ef farþegi á rétt á endurgreiðslu á farseðli af öðrum ástæðum en fram koma í grein 10.2 skal upphæð endurgreiðslunnar vera sem hér segir:
10.3.1.1 Ef enginn hluti farseðils hefur verið nýttur skal endurgreiðsla vera samkvæmt fargjaldareglu, að frádregnum þjónustugjöldum eða afbókunargjöldum.
10.3.1.2 Ef einhver hluti farseðils hefur verið nýttur skal endurgreiðsla nema mismuninum á greidda fargjaldinu og gildandi fargjaldi fyrir nýtta ferð, samkvæmt fargjaldareglunni, að frádregnum þjónustugjöldum eða afbókunargjöldum.
10.4.1 Ef farþegi týnir farseðli sínum, eða hluta hans, verður endurgreiðsla innt af hendi svo fljótt sem verða má eftir að gildistíma farseðils lýkur, gegn greiðslu sanngjarns umsýslugjalds og á grundvelli eftirfarandi skilmála:
10.4.1.1 Að týndi farseðillinn, eða hluti hans, hafi ekki verið nýttur, endurgreiddur áður eða skipt út fyrir nýjan.
10.4.1.2 Að farþeginn sem fær endurgreiðsluna skuldbindi sig, á því formi sem flugrekandi ákveður, til að endurgreiða flugrekanda fjárhæðina sem endurgreidd er ef um svik er að ræða og/eða að því marki sem týndi farseðillinn eða hluti hans hefur verið nýttur af þriðja aðila.
10.5.1 Flugrekandi getur hafnað endurgreiðslu ef sótt er um hana eftir að gildistími farseðilsins er liðinn.
10.5.2 Flugrekandi getur hafnað endurgreiðslu á farseðli sem hefur verið framvísað hjá flugrekanda eða starfsmönnum yfirvalda sem sönnun fyrir því að farþegi hyggist fara úr landi, nema farþegi sanni fyrir flugrekanda að hann hafi heimild til að vera áfram í landinu eða að hann muni fara úr landi með öðrum flugrekanda eða með öðrum ferðamáta.
10.5.3 Flugrekandi getur hafnað endurgreiðslu þar sem neikvætt fargjald hefur verið lagt á og flugrekandi hefur fellt niður breytingargjald.
Allar endurgreiðslur eru háðar opinberum lögum, reglum eða fyrirmælum landsins þar sem farseðillinn var upphaflega keyptur og landsins þar sem endurgreiðslan fer fram. Samkvæmt framangreindu ákvæði verða endurgreiðslur almennt gerðar með sama greiðslumáta og í sama gjaldmiðli og farseðillinn var greiddur með, en geta farið fram í öðrum gjaldmiðli ef flugrekandi óskar þess með réttmætum rökum. Flugrekandi ber ekki ábyrgð á gengismun á endurgreiðsludegi.
Valfrjáls endurgreiðsla fer aðeins fram af hálfu flugrekanda sem upphaflega gaf út farseðilinn eða viðurkenndra umboðsmanna hans.
Ef flugrekandi metur það svo að hegðun farþega um borð í vélinni stofni flugvélinni eða einhverjum einstaklingi eða eignum um borð í hættu, eða hindri áhöfnina í starfi sínu, eða farþegi fylgi ekki fyrirmælum áhafnarinnar, til dæmis um reykingar, áfengis- eða vímuefnaneyslu, eða hegði sér á þann hátt að það valdi öðrum farþegum eða áhöfninni óþægindum, vandkvæðum eða meiðslum, getur flugrekandi gert þær ráðstafanir sem hann telur réttmætar og nauðsynlegar til að binda enda á slíka háttsemi, þar á meðal frelsissviptingu.
Flugrekanda er heimilt að vísa farþega frá borði og neita honum um áframhaldandi ferð hvenær sem er og getur kært farþega fyrir brot sem framin eru um borð í flugvélinni.
Af öryggisástæðum getur flugrekandi bannað eða takmarkað notkun rafeindabúnaðar um borð í flugvélinni, meðal annars notkun á farsímum, fartölvum, litlum upptökutækjum, litlum útvörpum, geislaspilurum, tölvuspilum og senditækjum, þar með talið leikföngum, talstöðvum og öðrum tækjum til einkanota sem er stjórnað með útvarpsbylgjum. Notkun heyrnartækja og hjartagangráða er heimil.
Ef flugrekandi gerir ráðstafanir gagnvart einhverjum þriðja aðila um að veita farþega aðra þjónustu en flutning með flugi, eða ef flugrekandi gefur út farseðil eða inneignarmiða sem tengist flutningi eða þjónustu (annarri en flutningi með flugi) sem þriðji aðili veitir, svo sem hótelgistingu eða bílaleigubíl, kemur flugrekandi aðeins fram sem umboðsaðili. Undir slíkum kringumstæðum gilda ákvæði og skilmálar þriðja aðila þjónustuveitanda. Flugrekandi ber enga ábyrgð gagnvart farþega vegna slíkra ráðstafana eða vegna athafna eða vanefnda við veitingu slíkrar viðbótarþjónustu eða vanefnda á slíkri viðbótarþjónustu, aðra en ábyrgð vegna vanefnda flugrekanda við að gera slíkar ráðstafanir, og skal slík ábyrgð flugrekanda vera háð og takmarkast af ákvæðum 15. gr.
13.1.1 Farþegi ber ábyrgð á því að afla sér allra áskilinna ferðaskjala og vegabréfsáritana og fylgja öllum lögum, reglugerðum, fyrirmælum, kröfum og ferðakröfum í þeim löndum sem fljúga skal frá, inn í eða um.
13.1.2 Flugrekandi skal ekki bera ábyrgð á afleiðingum fyrir neinn farþega vegna þess að farþegi hefur ekki fengið slík skjöl eða vegabréfsáritanir í hendur eða ekki farið að téðum lögum, reglugerðum, fyrirmælum, kröfum, skilmálum, reglum eða leiðbeiningum.
Áður en ferð hefst verður farþegi að framvísa hverjum þeim skjölum sem tengjast útgöngu, inngöngu, heilsufari eða öðrum atriðum sem krafist er samkvæmt lögum, reglugerðum, fyrirmælum eða öðrum kröfum í viðkomandi löndum og skal heimila flugrekanda að gera og halda eftir afritum af slíkum skjölum. Flugrekandi áskilur sér rétt til að hafna flutningi ef farþegi hefur ekki uppfyllt þessar kröfur, eða ferðaskjöl hans virðast ekki vera í lagi eða ef farþegi leyfir flugrekanda ekki að taka afrit af þeim.
Ef farþeganum er neitað um komu í eitthvert land ber farþeganum að greiða allar sektir eða gjöld sem viðkomandi stjórnvöld telja að flugrekandi skuli greiða og allan kostnað við flutning farþegans úr landi. Flugrekandi endurgreiðir ekki fargjaldið sem er greitt fyrir flutning til staðarins þar sem farþega var neitað um inngöngu.
Ef flugrekandi þarf að greiða sekt eða leggja út fyrir útgjöldum vegna þess að farþegi fer ekki að lögum, reglugerðum, fyrirmælum, kröfum eða öðrum skilyrðum tengdum ferðalögum í viðkomandi löndum, eða framvísar ekki áskildum skjölum, skal farþeginn endurgreiða flugrekanda þegar þess er krafist þá upphæð sem flugrekandi hefur greitt eða útgjöld sem flugrekandi hefur lagt út fyrir. Flugrekandi getur krafist upphæðar sem nemur andvirði ónýttra ferða á farseðli til að mæta slíkum greiðslum eða kostnaði, eða haldið eftir hluta af fjármunum farþega sem eru í vörslu flugrekanda.
Ef þess er krafist skal farþegi vera viðstaddur skoðun á farangri sínum, innrituðum eða óinnrituðum, af hálfu tollgæslu eða annarra starfsmanna ríkisins. Flugrekandi er ekki ábyrgur gagnvart farþega vegna tjóns eða skaða sem farþeginn verður fyrir við slíka skoðun eða vegna þess að farþegi uppfyllir ekki þessa kröfu.
Farþegi skal undirgangast allar öryggisathuganir stjórnvalda, flugvallarstarfsmanna eða flugrekanda.
Ef flutningur farþega fer fram hjá nokkrum flugrekendum í röð, samkvæmt einum farseðli, eða samkvæmt farseðli og einhverjum tengdum farseðlum sem gefnir eru út í tengslum við þann farseðil, er litið á slíkan flutning sem stakan gjörning að því er varðar samninginn; farþegum er þó bent á að kynna sér grein 15.1.2.(b).
Ábyrgð Icelandair og hvers þess flugrekanda sem á aðkomu að ferð farþegans ákvarðast af eigin flutningsskilmálum hvers flugrekanda. Ábyrgðarákvæði Icelandair eru eftirfarandi:
15.1.1 Flutningur er háður reglum og takmörkunum varðandi bótaábyrgð sem tilgreindar eru í samningi, nema slíkur flutningur sé ekki alþjóðlegur flutningur sem samningurinn tekur til.
15.1.2(a) Hver sú bótaábyrgð sem flugrekandi kann að bera á tjóni skerðist ef ljóst þykir að vanræksla farþega hafi orsakað eða stuðlað að tjóni, í samræmi við gildandi lög.
15.1.2(b) Flugrekandi er aðeins bótaskyldur vegna tjóns sem verður á flugferð sem flugrekandi rekur. Ef flugrekandi gefur út farseðil eða innritar farangur til flutnings hjá öðrum flugrekanda er það einungis gert í umboði hins flugrekandans. Að því er varðar innritaðan farangur skal farþegi þó einnig eiga rétt á að bregðast við gagnvart bæði fyrsta og síðasta flugrekanda.
15.1.2(c) Flugrekandi er ekki ábyrgur fyrir neinu tjóni sem áskapast vegna þess að flugrekandi fór að gildandi lögum eða reglugerðum stjórnvalda eða vegna þess að farþegi fylgdi ekki sömu lögum og reglugerðum.
15.1.2(d) Ábyrgð flugrekanda er háð því að farþegar leggi fram viðeigandi gögn, þar á meðal, þar sem við á, gögn um kaup þar sem tilgreindur er kaupdagur og kaupverð. Ef um bótaskyldu er að ræða verða afskriftir vegna farangurs dregnar frá.
15.1.2(e) Ef aldur farþega eða andlegt og líkamlegt ástand hans getur valdið honum einhvers konar hættu skal flugrekandi ekki bera bótaábyrgð gagnvart honum í tengslum við sjúkdóma, meiðsli eða fötlun, né heldur andlát, sem rekja má til slíks ástands eða þess að slíkt ástand ágerist.
15.1.2(f) Flutningssamningurinn, þar með taldir þessir flutningsskilmálar og undanþágur eða takmarkanir á bótaábyrgð, gildir um flugrekendur, viðurkennda umboðsmenn, starfsmenn og fulltrúa þeirra að sama marki og hann gildir um flugrekanda. Heildarfjárhæðin sem hægt er að innheimta hjá flugrekanda og hjá slíkum viðurkenndum umboðsmönnum, starfsmönnum og fulltrúu, skal ekki vera hærri en fjárhæð eigin ábyrgðar flugrekandans, ef einhver er.
15.1.2(g) Ekkert í þessum flutningsskilmálum skal fella úr gildi neina útilokun eða takmörkun á bótaábyrgð flugrekanda samkvæmt samningnum eða gildandi lögum, nema annað sé sérstaklega tekið fram.
15.2.1 Flugrekandi ber ekki ábyrgð á tjóni eða tapi á óinnrituðum farangri, nema slíkt tjón eða tap megi rekja til gáleysis flugrekanda.
15.2.2 Bótaábyrgð flugrekanda vegna tjóns, tafa eða taps á innrituðum farangri takmarkast við 1,288 SDR fyrir hvern farþega sem skráður er fyrir innrituðum farangri, nema ef um er að ræða athafnir eða athafnaleysi af ásetningi eða til að valda tjóni, og/eða af gáleysi og með vitund um að slíkt myndi líklega leiða til skemmda, tafa eða tjóns.
15.2.3 Ef verðmæti innritaðs farangurs farþega er meira en hámarksbótaábyrgð flugrekanda skulu farþegar tryggja að innritaður farangur sé að fullu tryggður áður en ferð hefst.
15.2.4 Flugrekandi ber ekki bótaábyrgð á tjóni sem hlýst af farangri farþega og farþegi ber ekki ábyrgð á tjóni á fólki eða eignum, þ.m.t. eignum flugrekanda, sem hlýst af farangri farþega.
Samþykki handhafi farangurs farangursávísunina án umkvörtunar við afhendingu telst það fullnægjandi sönnun þess að farangurinn hafi verið afhentur í góðu ásigkomulagi og í samræmi við flutningssamning, nema farþegi sanni annað. Allar kröfur þarf að setja fram með tölvupósti til þjónustudeildar okkar.
Ef farþegi vill leggja fram kröfu eða krefjast aðgerða vegna skemmda á innrituðum farangri verður viðkomandi að tilkynna flugrekanda um það um leið og farþegi uppgötvar tjónið og í síðasta lagi innan sjö (7) daga frá móttöku farangurs. Hafi ekki verið tilkynnt um tjónið á flugvellinum við komu þarf að senda kröfuna skriflega til þjónustudeildar okkar með myndum af skemmda farangrinum og staðfestingu á aldri og verðmæti hans.
Vilji farþegi leggja fram kröfu eða krefjast aðgerða vegna seinkunar á afhendingu á innrituðum farangri ber honum að tilkynna það flugrekanda innan tuttugu og eins (21) dags frá þeim degi þegar farangurinn var færður í vörslu farþegans. Allar slíkar tilkynningar þarf að leggja fram skriflega eða með því að senda tölvupóst til þjónustudeildar okkar.
Réttur til skaðabóta fellur niður ef mál er ekki höfðað innan tveggja ára frá komudegi á áfangastað, eða þeim degi þegar áætlað var að flugvélin kæmi, eða þeim degi þegar flutningur var stöðvaður. Aðferðin sem beitt er við útreikning á tímafresti ræðst af gildandi lögum dómstólsins þar sem málið er höfðað.
Flutningur farþega og farangurs er einnig inntur af hendi í samræmi við tilteknar aðrar reglugerðir og skilmála sem gilda um eða eru samþykktir af flugrekanda og tengjast rekstraröryggi, stundvísi og þægindum farþega. Þessar reglugerðir og skilmálar hafa mismikið vægi hverju sinni. Þær varða meðal annars flutning fylgdarlausra undir lögaldri, fatlaðra farþega, barnshafandi kvenna, veikra farþega, takmarkanir á notkun rafeindatækja og -hluta, flutning á tilteknum hættulegum hlutum um borð og neyslu áfengra drykkja og reykingaefna.
Hægt er að fá reglugerðir og skilmála varðandi þessi mál afhent hjá flugrekanda ef þess er óskað.