Borgarstjóri Chicago fagnar flugi Icelandair
Rahm Emanuel, borgarstjóri Chicago, sagði ferðaþjónustu eina af mikilvægustu atvinnugreinunum til að tryggja vöxt og viðgang borgarinnar, þegar hann bauð Ragnheiði Elínu Árnadóttur, ráðherra ferðamála, Geir Haarde, sendiherra, og forystu Icelandair til fundar í ráðhúsi Chicago til fundar í dag, fimmtudag, í tilefni af fyrsta flugi Icelandair til borgarinnar.
Rahm Emanuel, sem áður var starfsmannastjóri Barak Obama Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu og er einn af þekktari stjórnmálamönnum Bandaríkjanna, bauð Icelandair velkomið til Chicago, fagnaði þeim möguleikum sem beint flug milli borgarinnar og Íslands skapaði og sagði frá kynnum sínum af landi og þjóð.
Icelandair flaug til og frá Chicago í fimmtán ár frá 1973 til 1988 og tekur nú upp þráðinn 28 árum síðar. Borgin er 15. áfangastaður félagsins í Norður-Ameríku og sá sextándi, Montreal í Kanada, bætist við í maí.
Á myndinni eru Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra og Rahm Emanuel borgarstjóri Chicago.