Eingöngu rafræn viðskipti um borð hjá Icelandair
Icelandair hefur tekið í notkun nýjar sölutölvur um borð í flugvélum sínum sem bjóða upp á möguleika á að taka á móti debetkortum jafnt og kreditkortum í háloftunum. Til að flýta afgreiðslu og auka þjónustu verður á sama tíma hætt að nota reiðufé um borð.
„Þeir sem ferðast milli landa eru nánast undantekningalaust með debet- eða kreditkort og notkun seðla og myntar um borð er nú þegar mjög lítil. Við höfum ekki getað tekið þetta skref til fulls fyrr en nú þegar tæknin opnar þessa möguleika gagnvart debetkortunum og við getum þannig fylgt þeirri þróun sem við sjáum hjá ýmsum stærri flugfélögum í kringum okkur“, segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Greiðslumöguleikar um borð verða því öll debet- og kreditkort, sem og Vildarpunktar Icelandair. Einnig er farþegum boðið að panta mat og tollfrjálsan varning fyrirfram á heimasíðu félagsins.