Leið Íslands á EM 2017
A-landslið kvenna í knattspyrnu hefur verið á mikilli siglingu undanfarin ár og fært sig hratt upp metorðastiga FIFA. Stelpurnar hafa þegar tryggt sér sæti á EM 2017 sem fram fer í Hollandi næsta sumar og er það þriðja skipti í röð sem þær komast í úrslitakeppni Evrópumeistaramótsins. Þessi árangur er engin tilviljun, enda sitja þær í efsta sæti í sínum riðli í undankeppninni og hafa ekki fengið á sig mark fyrir síðasta leikinn gegn Skotum.
Icelandair er opinbert flugfélag íslenska landsliðsins í knattspyrnu
Áhugaverðar staðreyndir um knattspyrnu kvenna á Íslandi
- Íslenska kvennadeildin í knattspyrnu varð upphaflega til þegar nokkrar handboltakonur fóru að nýta sér leikinn við upphitun fyrir handboltaæfingar á sjöunda áratug tuttugustu aldar.
- Fyrsti leikur A-landsliðs kvenna í knattspyrnu var á móti Skotum, og fór fram í Skotlandi þann 20. September 1981. Þegar stelpurnar mæta Skotum í lokaleik undankeppninnar verða því liðin 35 ár frá fyrsta leiknum.
- Ásta B. Gunnlaugsdóttir var í lykilhlutverki á upphafsárum landsliðsins. Hún spilaði fyrsta leik liðsins gegn Skotum og 22 af 25 fyrstu leikjunum sem liðið spilaði, þar til hún lagði skóna á hilluna árið 1994. Árið 1987 missti hún af þremur leikjum þegar hún eignaðist dóttur sína, Gretu Mjöll Samúelsdóttur. Á árunum 2005 - 2012 spilaði Greta Mjöll sjálf 28 leiki með landsliðinu og skoraði 3 mörk.
- Ásthildur Helgadóttir er ein af skærustu stjörnum íslenskrar knattspyrnusögu og var lengi vel einn af bestu leikmönnum sænsku deildarinnar. Systir hennar, Þóra Björg Helgadóttir, er einn allra reyndasti markmaður sem Íslendingar hafa átt.
- Margrét Lára Viðarsdóttir er markahæsti leikmaður íslensks landsliðs í knattspyrnu frá upphafi, með 77 mörk í 109 leikjum.
Konurnar mæta til leiks
Þó knattspyrna, á því formi sem hún er iðkuð í dag, hafi borist til landsins í lok 19. aldar, var það ekki fyrr en á áttunda áratug þeirra 20. sem fyrsta opinbera mótið, og vísir að deild, í knattspyrnu kvenna fór fram á Íslandi. Það var þó ekki af áhugaleysi sem það gerðist ekki fyrr. Strax árið 1914 komu nokkrar stúlkur á Ísafirði saman og stofnuðu fótboltafélagið Hvöt, í andstöðu við bann Fótboltafélags Ísafjarðar við því að konur stunduðu knattspyrnu, og ári seinna, 1915, var kvennalið Víkings í Reykjavík sett á laggirnar. Þessar tilraunir voru þó gagnrýndar og á endanum lagðar niður.
Upp úr 1960 fór hinsvegar að bera á því að handboltakonur nýttu sér knattspyrnu við upphitun fyrir æfingar og á sumrin, til að halda sér við utan tímabils. Eftir því sem fleiri konur sneru fóru að leggja stund á leikinn jókst áhuginn og árið 1970 fór fram fyrsti eiginlegi leikurinn í knattspyrnu kvenna hér á landi. Þá mættust úrvalslið Keflavíkur og Reykjavíkur á Laugardalsvellinum fyrir leik hjá karlalandsliðinu.
Tveimur árum seinna var svo flautað til leiks á fyrsta mótinu í knattspyrnu kvenna. Leikið var í tveimur fjögurra liða riðlum og stóðu FH úr Hafnarfirði uppi sem sigurvegarar mótsins. Á árunum sem á eftir fylgdu kynntu svo fleiri knattspyrnufélög kvennalið sín til leiks. En þrátt fyrir velgengni margra þessara liða tóku æ fleiri félög upp á því að leggja þau niður — jafnvel þegar hvað best gekk — án sýnilegrar ástæðu. Árið 1980 voru því aðeins þrjú félög sem stilltu upp liðum á mótið.
A-landsliði kvenna komið á fót
Árið 1981 var tekin ákvörðun um að koma á fót A-landsliði kvenna í knattspyrnu og lagði þáverandi formaður hart að því að það yrði að veruleika. Í sínum fyrsta leik, sama ár, mætti liðið Skotum á útivelli og tapaði naumlega með einu marki, 2-3.
Liðið tók þátt í undankeppni Evrópumeistaramótsins árið eftir, en tókst ekki að komast í lokakeppnina. Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að skrá liðið ekki til leiks árið eftir og var sú ákvörðun harðlega gagnrýnd. Þessi ákvörðun þýddi meðal annars að liðið myndi ekki geta tekið aftur þátt í undankeppni EM fyrr en árið 1987. Til þess kom þó ekki, því það ár var liðið lagt niður um óákveðinn tíma.
Það var svo ekki fyrr en fimm árum seinna, árið 1993, að liðið var endurvakið. Það hélt áfram að bæta sig og læra af fyrri reynslu. Ný kynslóð var þá að ryðja sér til rúms í kvennaknattspyrnunni og strax árið 1994 komust þær í umspil fyrir EM95 í Þýskalandi, en töpuðu fyrir Englendingum.
Stelpurnar verða atvinnumenn
Hlutirnir gerðust hratt upp úr aldamótum. Árið 2001 skrifuðu tvær íslenskar knattspyrnukonur undir samning sem atvinnumenn í Bandaríkjunum og sama ár urðu KR-ingar fyrsta íslenska liðið til að komast í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu kvenna.
Árið 2008 markar svo ákveðin tímamót fyrir knattspyrnu kvenna á Íslandi og íslenska landsliðið. Þá voru 10 leikmenn íslenska liðsins atvinnumenn og náði liðið þeim merka áfanga að tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumeistaramótsins í Finnlandi, 2009. A-landslið kvenna varð þar með fyrst íslenskra knattspyrnuliða til að komast í lokakeppni stórmóts.
Þær endurtóku svo leikinn og tryggðu sér aftur sæti á EM2013 í Svíþjóð, en bættu um betur þegar þær komust alla leið í fjórðungsúrslit, þar sem þær lágu fyrir gestgjöfunum. Icelandair hefur verið styrktaraðili KSÍ um langa hríð og við erum stolt af því að fá að fylgja stelpunum á þessari stórkostlegu vegferð þeirra.
Hápunktar í sögu íslenskrar kvennaknattspyrnu
- Árið 2008 tryggði kvennalandsliðið sér sæti á EM 2009 í Finnlandi. Liðið varð þar með fyrst íslenskra knattspyrnuliða til að ná þeim áfanga að komast í úrslitakeppni stórmóts.
- Eftir að hafa endurtekið leikinn fyrir EM 2013 í Svíþjóð, tókst stelpunum okkar að verða líka fyrstar til að næla í stig í úrslitakeppni stórmóts, þegar þær gerðu jafntefli við Norðmenn.