Pingdom Check
01/07/2015 | 12:00 AM

Flughermir Icelandair í Hafnarfirði opnaður í dag

Nýr flughermir, sem Icelandair hefur hafið rekstur í nýbyggingu að Flugvöllum í Hafnarfirði, var formlega opnaður með stuttri athöfn í dag. Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair og Hilmar B. Baldursson, flugrekstrarstjóri félagsins klipptu á borða og opnuðu þannig flugherminn með táknrænum hætti.

Flughermar eru notaðir til þjálfunar nýrra flugmanna sem og reglubundinnar þjálfunar starfandi flugmanna sem þurfa að fara í endurþjálfun á 6 mánaða fresti. Þessi flugmannaþjálfun Icelandair hefur til þessa ávallt farið fram erlendis þar sem enginn flughermir hefur verið á Íslandi. Hún hefur undanfarin ár farið fram í Kaupmannahöfn og í London.

“Mikill vöxtur á undanförnum árum með fjölgun flugvéla og flugmanna gerir það að verkum að það borgar sig að taka þessa starfsemi heim til Íslands, það eykur hagkvæmni og sparnað í okkar rekstri. Jafnframt er um að ræða nýjasta og fullkomnasta tækjabúnað sem völ er á, sem bætir þjálfun áhafna frá því sem verið hefur og styrkir hana til framtíðar. Það er einnig ánægjulegt fyrir Icelandair að fá þjálfunina inn í landið, það treystir undirstöður atvinnugreinarinnar, eykur almenna þekkingu og reynslu hér á landi og býr hugsanlega til ný tækifæri“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. 

Flughermirinn er af gerðinni B757 “Level D” og er rekinn af í samstarfi við fyrirtækið Tru Simulation + Training. Hann er nákvæm eftirlíking af stjórnklefa Boeing 757 flugvélar eins og Icelandair notar í sínum flugrekstri.  Flughermirinn líkir eftir flugeiginleikum Boeing 757 flugvéla og unnt er að kalla fram margháttaðar bilanir og óvæntar aðstæður, breytileg veðurskilyrði o.fl. og þjálfa viðbrögð flugmanna og láta reyna á þjálfun þeirra. 

Flughermirinn er með mjög fullkomnum myndvörpum sem líkja eftir útsýni úr flugstjórnarklefa og á rafdrifnum tjökkum sem hreyfa hann og skapa þá tilfinningu hjá flugmönnum að þeir séu að fljúga við raunverulegar aðstæður. 

 

Mynd: Icelandair, Siggi Anton