Pingdom Check


08/16/2018 | 12:00 AM

Flugmenn til framtíðar – spurningar og svör

Icelandair í samstarfi við L3 Commercial Aviation flugskólann í Englandi hefur sett upp nýja flugnámsbraut til þess að styðja áframhaldandi vöxt Icelandair.

Icelandair mun aðstoða nemendur við fjármögnun námsins og þeir nemendur sem standast kröfur Icelandair munu njóta forgangs til starfa hjá félaginu að námi loknu. Námið verður öllum opið og er þess ekki krafist að umsækjendur hafi hafið flugnám. Þeim einstaklingum sem þegar eru í flugnámi gefst einnig tækifæri á að taka þátt í þessari námsleið. Nemendur hefja nám í nóvember, nk, og geta hafið störf sem flugmenn árið 2020. 

Ef þú hefur áhuga, smelltu hér til að hefja umsóknarferlið.

Hér að neðan getur að líta svör við helstu spurningum sem við fáum.

Geta allir sótt um námið, hvað með inntökuskilyrði, menntun og aldur?

Gerð er krafa um að umsækjendur séu á bilinu 18 – 30 ára þegar námið hefst. Þá er gerð krafa um að þeir hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi. Umsækjendur skulu enn fremur hafa fullt vald á íslensku og ensku, talaðri og skrifaðri.

Hvað kostar námið?

Kostnaður er mismunandi eftir skólum.

Í hvaða flugskólum fer námið fram?

Skólarnir sem eru þátttakendur í verkefninu eru L3 Commercial Aviation,  Flugakademía Keilis og Flugskóli Íslands.

Hvað kostar að sækja um?

Kostnaður er mismunandi eftir skólum, en auk þess þurfa umsækjendur að greiða kostnað vegna læknisskoðana.

Hvað með þá sem þegar eru í flugnámi, geta þeir sótt um?

Við hvetjum þá sem eru í flugnámi að halda sínu striki í sínum skóla.

Hvenær byrja nemendur í námi og hvenær geta þeir farið að fljúga hjá Icelandair?

Næsta námskeið mun byrja í nóvember 2018, fyrir störf sumarið 2020.

Hvernig er aðstoðin við fjármögnun hugsuð, hversu háir vextir eru á lánum og til hversu langs tíma er lánað?

Icelandair er með samning við lánastofnun og mun ábyrgjast lán nemandans, ásamt því að semja um hagstæð vaxtakjör. Reiknað er með að lánið verði endurgreitt á 10-15 fyrstu starfsárum viðkomandi flugmanns hjá Icelandair.

Hvernig er valið, hvað próf þurfa umsækjendur að gangast undir?

Inntökuferlið er í höndum flugskólanna.  

Inntökupróf felast m.a. í greindar- og þekkingarprófi, sálfræðimati, persónuleikaprófi, enskuprófi o.fl. Hluti af þessu ferli fer fram á netinu, en hluti með viðtölum og verkefnum með sérfræðingum skólanna á höfuðborgarsvæðinu. Greitt er fyrir inntökuprófin fyrirfram.

Þeir einstaklingar sem verða boðaðir í inntökupróf þurfa að skila inn hreinu sakavottorði. 

Hvenær verða inntökuprófin, hvar verða þau haldin og hve langan tíma taka þau?

Prófin verða haldin um leið og búið verður að vinna úr umsóknum, þau verða haldin að hluta til á netinu en einnig á höfuðborgarsvæðinu. Nemendur munu fá allar nánari upplýsingar eftir að hafa fyllt út umsókn. Reiknað er með að hægt verði að klára prófin á 2 – 3 dögum.