Fyrsta flug Icelandair til Genfar
Áætlunarflug Icelandair til Genfar í Sviss hófst í morgun, 24. maí. Flogið verður til og frá borginni tvisvar í viku til 23.september.
Genf er gamalgróin söguleg borg og mikil miðstöð alþjóðastofnanna með um 1,1 milljón íbúa. Hún stendur við Genfarvatn vestast í Sviss við landamæri Frakklands. „Við hófum flug til Zurich í Sviss í fyrravor og það gekk vel“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. „Við erum að auka tíðni þangað í sumar og lengja ferðatímabilið og bætum nú Genf inn til þess að anna þeirri eftirspurn sem við teljum að sé á þessum markaði. Stærstur hluti farþeganna er, eins og við bjuggumst við, ferðamenn á leið í Íslandsferð“, segir Birkir.
Á Keflavíkurflugvelli í morgun klipptu fulltrúar farþega og áhafnar Icelandair á borða til að marka upphaf áætlunarflugsins til Genfar. Á myndinni eru Sigurvin Einarsson , flugstjóri og Ómar Magnússon, flugmaður, auk flugfreyjanna Söru Reginsdóttur, Ingu Hugborgar Ómarsdóttur, Kristínar Sigurðardóttur og flugþjónsins Andra Kristins Ágústssonar. Farþegarnir heita Callagy Ross og Tori Scarzello.