Hraðleið Icelandair í gegnum öryggisskoðun loks í boði á Keflavíkurflugvelli
Í dag bætist Keflavíkurflugvöllur í hóp þeirra fjölmörgu flugvalla þar sem Icelandair býður viðskiptavinum svokallaða Hraðleið sem gefur farþegum kost á því að komast enn hraðar í gegnum öryggisleitina en áður.
Þessi þjónusta er vel þekkt erlendis og viðskiptavinir hafa lengi kallað eftir því að hún yrði boðin hér á landi.
Það er því mikið ánægjuefni að þróunarvinna okkar til margra mánaða með Keflavíkurflugvelli skuli nú skila sér í auknu þjónustuframboði fyrir viðskiptavini Icelandair. Til að byrja með verður þjónustan í boði fyrir Saga Class farþega og alla Icelandair Saga Gold korthafa, óháð því á hvaða farrými þeir fljúga á. Þjónustan er þessum farþegum að kostnaðarlausu. Til að nýta sér þjónustuna þarf að framvísa brottfaraspjaldi og því er rétt að minna Saga Gold félaga á að skrá Sagakortsnúmerið sitt í bókun áður en för hefst.
Auk Keflavíkur stendur þjónustan til boða í öllum höfuðborgum Norðurlandanna; í London, Frankfurt, París, Amsterdam og stærstu áfangastöðum Icelandair í Evrópu. Helstu áfangastaðir Icelandair í Norður-Ameríku bjóða að sama skapi upp á hraðleið, svo sem New York, Boston og Chicago.