Pingdom Check
10/28/2016 | 12:00 AM

Icelandair flugfélag ársins hjá CAPA

Icelandair var í gærkvöldi valið flugfélag ársins í flokki smærri flugfélaga af CAPA – Center for Aviation, sem er alþjóðleg upplýsingaveita um flugmál. Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair tók við viðurkenningunni við hátíðlega athöfn í Amsterdam í gærkvöldi.

Verðlaunin sem Icelandair hlaut eru veitt því flugfélagi í heiminum sem þykir skara fram úr meðal þeirra sem flytja færri en 10 milljónir farþega árlega. Dómnefnd alþjóðlegra sérfræðinga valdi Icelandair vegna sterkrar frammistöðu í harðri alþjóðlegri samkeppni þrátt fyrir að heimamarkaður félagsins sé lítill. Félagið hafi vaxið hratt og skilað hvað bestum rekstrarárangri meðal hefðbundinna flugfélaga. Peter Harbison, forstjóri CAPA, sagði m.a. frumlegt og framsækið leiðakerfi með tengingum milli Evrópu og Norður-Ameríku hafa drifið áfram bæði vöxt félagsins og ferðaþjónustunnar á Íslandi, og að bæði vöxturinn og afkoman væri sannarlega óvenjuleg meðal Evrópskra flugfélaga.

CAPA – Center for Aviation er helsta upplýsingaveita og rannsóknaraðili á alþjóðaflugmarkaðinum og sérfræðingar fyrirtækisins veita stjórnvöldum, flugfélögum og flugvöllum um allan heim ráðgjöf og tölfræðiupplýsingar.

Á myndinni er Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, að taka við viðurkenningunni í Amsterdam í gærkvöldi.