Pingdom Check


12/30/2014 | 12:00 AM

Icelandair Group og Landsbjörg semja um samstarf

Icelandair Group verður einn af aðalstyrktaraðilum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Samningur um þetta var undirritaður á Akureyri í dag af Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair Group og Margréti Laxdal, varaformanni Landsbjargar.

Markmið Icelandair Group með samningnum er að styðja Slysavarnafélagið Landsbjörg við að reka öflugt slysavarna- og björgunarstarf og auka samstarf í öryggismálum ferðamanna. Markmiðið er að fækka slysum og efla ímynd Íslands sem ferðamannalands með góðu upplýsingastreymi og öflugu öryggisneti. „Slysavarnafélagið Landsbjörg sinnir mjög mikilvægu hlutverki hér á landi og við viljum taka aukinn þátt í því starfi“, segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group. „Við erum með þessum samningi að ramma inn öll þau viðskipti og samstarf á milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar og fyrirtækja innan Icelandair Group sem til staðar eru í einn samning, gera samstarfið öflugra og skilvirkara“, segir hann.

Samstarfið við Icelandair Group styrkir hið mikla starf Slysavarnafélagsins Landsbjargar verulega og verður mikilvægur þáttur til eflingar slysavarna ferðamanna, m.a. með því að efla vefinn SafeTravel.is og koma honum áfram til erlendra ferðamanna í gegnum dreifileiðir Icelandair Group, en einnig mun samningurinn renna styrkari stoðum undir það öfluga starf sem sjálfboðaliðar samtakanna sinna á sviði leitar- og björgunar.

Samningurinn gildir til þriggja ára og felur í sér margháttað samstarf og gagnkvæma þjónustu.