Farþegar Icelandair og Air Iceland Connect geta nú kolefnisjafnað flugið sitt
Icelandair Group tekur frekari skref í átt að umhverfisvænni starfsemi
Farþegar Icelandair og Air Iceland Connect geta frá og með deginum í dag kolefnisjafnað flug sitt. Í kjölfar bókunar flugmiða gefst farþegum kostur á að greiða viðbótar framlag til að jafna kolefnisfótspor sitt. Icelandair og Air Iceland Connect, í samstarfi við Klappir grænar lausnir, hafa reiknað út hversu mikið af gróðurhúsalofttegundum losna við flug til allra áfangastaða félaganna. Framlagið mun renna óskert til Kolviðar sem hefur umsjón með kolefnisjöfnuninni sem felst í því að binda kolefni í gróðri og jarðvegi.
„Icelandair Group hefur stigið mörg skref í umhverfisvænni átt í starfsemi sinni og við leitum sífellt frekari leiða til að draga úr losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið. Neytendur eru meðvitaðir um eigin kolefnisfótspor og það er ánægjulegt að koma til móts við farþega okkar sem vilja jafna kolefnislosun sína vegna flugferða. Þetta er mikilvægt skref og í samræmi við stefnu félagsins. Þá geta viðskiptavinir Icelandair Cargo nú þegar jafnað kolefnislosun sína sem myndast vegna flutninga með félaginu,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. „Þess má geta að Icelandair er eitt fárra flugfélaga í heiminum sem hefur hlotið umhverfisvottun fyrir alla starfsemi sína. Air Iceland Connect er jafnframt með umhverfisvottun samkvæmt alþjóðlega umhverfisstaðlinum ISO 14001.“
Icelandair Group hefur gripið til ýmissa aðgerða á undanförnum árum í umhverfis- og loftslagsmálum. Vélum fyrirtækisins hefur til dæmis verið breytt með ásetningu svokallaðra vængugga (e. winglets) sem draga úr loftmótstöðu og spara þannig eldsneyti. Einnig hefur félagið innleitt verklag og ýmsar aðferðir til að lágmarka eldsneytisnotkun, svo sem við aðflug og lendingu og með innleiðingu eldsneytisvöktunar til að draga úr losun. Þar að auki nýta flugmenn sérstaka flugtækni með það að markmiði að minnka hávaðamengun og eldsneytisnotkun en flugmenn draga til að mynda úr flughraða og þar með eldsneytisnotkun ef útlit er fyrir að viðkomandi flugvél lendi fyrir áætlun.
Um Kolvið
Kolviður er kolefnissjóður sem var stofnaður af Skógræktafélagi Íslands og Landvernd. Markmið sjóðsins er að auka bindingu kolefnis í jarðvegi með þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti. Kolviður býður fyrirtækjum og einstaklingum að gerast kolefnishlutlaus. Sjóðurinn fjármagnar aðgerðir til bindingar kolefnis með landgræðslu, skógrækt og öðrum leiðum sem draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda. Kolviður vinnur jafnframt að því að vernda jarðveg, gróður og vatnsauðlindir.