Litrík framtíð
Við erum sífellt að skoða nýjar leiðir til þess að koma anda Íslands á framfæri um allan heim. Þar sem við eyðum umtalsverðum tíma fljúgandi um loftin blá, lá beinast við að horfa til himins og landsins úr lofti þegar velja átti nýja liti, meðal annars til norðurljósanna.
Á nýju ári munum við breyta útliti vélanna okkar. Þetta er í fyrsta sinn frá 2006 sem við breytum útliti þeirra en undanfarin tvö ár höfum við verið að rýna í vörumerkið okkar í heild sinni.
Koma nýja flotans
TF-ICE, Boeing 737 MAX 8 vél sem ber nafnið Jökulsárlón, var fyrsta vél flotans til að hljóta nýtt útlit. Hún flýgur frá Norwich, Bretlandi (þar sem hún var máluð) og lendir á Keflavíkurflugvelli föstudaginn 28. janúar.
Áætlað er að fimm MAX vélar státi af nýju útliti í lok febrúar og hver vél flotans verður færð í nýju litina okkar í samræmi við reglubundið viðhald á hverri vél.
Breytingarnar á útlitinu telja meðal annars fimm nýja liti á stéli flugvélanna (norðurljósablár, bleikur, himinblár, gulur og grænn), og standa fyrir fjölbreytileg litbrigði íslenskrar náttúru. Fyrsta vélin sem kemur til landsins í nýjum lit verður með himinblátt stél.
Nýju litirnir okkar
Innblásturinn fyrir nýju litina var fengin frá því sem beinast lá við – það sem ber fyrir augum okkar úr lofti. Grunnlitirnir okkar eru miðnæturblár og hvítur. Nýja litapallettan inniheldur meðal annars norðurljósabláan, eldbleikan, ferskbláan, gulan og grænan.
Að okkar mati vísa allir þessir litir í íslenska andann og náttúru á einhvern hátt en markmið okkar er að koma þessum anda á framfæri um víða veröld. Fjölbreytileiki þjóðar í Norður-Atlantshafinu á fullt erindi við heiminn og það er okkur ljúft og skylt að gefa þessum anda byr undir báða vængi. Íslenski andinn er hugarástand sem stendur öllum til boða, sama hvaðan þau koma.
Veitingasala á Reykjavíkurflugvelli fær nýjan svip
Ákveðið var að hressa upp á útlit veitingasölunnar á Reykajvíkurflugvelli í takt við nýju litina, og leggja einnig áherslu á sjálfbærni.
Kíktu á myndbandið og sjáðu breytingarnar.