Pingdom Check
04/02/2024 | 2:49 PM

Skandinavískt ævintýri fyrir bragðlaukana

Hvað er skandinavískur matur? Er það eitthvað annað en íslenskur fiskur, sænskar kjötbollur og danskar pulsur? Það virðist dekkjaframleiðandinn Michelin í það minnsta meina í nýrri matarleiðsögn sinni um Norðurlöndin. Þar hljóta hvorki fleiri né færri en 268 veitingastaðir á svæðinu meðmæli, þeirra á meðal íslensku staðirnir DILL, Moss og ÓX. Því er ráð að líta yfir landslag skandinavískrar matargerðar og sjá hvað er á boðstólnum.

Kræsingar í Kaupmannahöfn

Kaupmannahöfn státar flestum Michelin-stjörnum af öllum borgum Norðurlandanna og hefur áunnið sér orðstýr sem borg full af kræsingum í helstu kreddum matgæðinga. Að þessu sinni hlutu 30 danskir veitingastaðir stjörnur.

Þrír staðir í Kaupmannahöfn voru skreyttir þremur stjörnum, hæstu einkunn Michelin. Staðurinn Jordnær hlaut þrjár stjörnur í fyrsta sinn en staðurinn býður upp á sjávar- og grænmetisrétti af hæsta gæðaflokki með skemmtilegu og skapandi ívafi. Þá hlaut Noma viðurkenningu fyrir sjálfbærni til viðbótar við stjörnurnar sínar þrjár. Staðurinn býður upp á afslappandi andrúmsloft og einstakan náttúruinnblásinn matseðil í gróðurhúsi við vatnið. Þriðji þriggja stjörnu staðurinn er Geranium en hann hefur það að markmiði að skapa máltíðir sem vekja öll skilningarvitin – endurnæra, ögra og auðga. Staðurinn er staðsettur á áttundu hæð þjóðarleikvangs Dana og býður upp á einstaka matargerð og glæsilegt útsýni yfir garðinn.

Hnossgæti í Helsinki

Palace í Helsinki var fyrsti staðurinn í sögu Finnlands til að hljóta Michelin stjörnu árið 1987. Staðurinn er á tíundu hæð módernkískrar byggingingar við höfnina sem var reist fyrir Ólympíuleikana 1952 og er nú eini staður landsins sem státar tveimur Michelin stjörnum. Þar er að finna lúffengan, nýtískulegan smakkseðil sem er borinn fram bæði af meðlimum matreiðsluteymisins og þjónum.

Sælgæti í Stokkhólmi

Að þessu sinni hlutu 22 sænskir veitingastaðir viðurkenningu Michelin. Frantzén í Stokkhólmi hlaut að nýju þrjár stjörnur. Staðurinn býður upp á einstaka matarupplifun, norræna rétti með asísku ívafi í fallegri byggingu frá 19. öld.

Nautnir í Noregi

Að þessu sinni voru 20 norskir staðir sæmdir Michelin stjörnum, þar af voru tveir sæmdir þremur stjörnum. Sá fyrri er Maaemo, framúrskarandi staður í Osló þar sem tíminn virðist standa í stað. Hvert réttur er meistaralega útbúinn og skartar einstökum bragðsamsetningum og áferðum, allt saman á stað sem leggur áherslu á sjálfbærni með lífrænni ræktun og lágmarksúrgangi. Sá síðari er RE-NAA í Stavangri sem hlaut þrjár stjörnur í fyrsta sinn í ár. Eldhúsið er nokkuð bókstaflega í hjarta staðarins þar sem það er staðsett í miðju borðsalsins, sem gerir hverja máltíð að einstakri sýningu. Kokkarnir reiða fram flókna rétti úr bestu hráefnum, með sérstaka áherslu á fisk og skelfisk úr nærsveitum, hver máltíð einstök upplifun sem verður seint gleymd.