Pingdom Check


06/03/2014 | 12:00 AM

Náttúran í forgrunni í nýju öryggismyndbandi Icelandair

Á dögunum frumsýndi Icelandair nýtt öryggismyndband sem sýnt verður um borð í öllum vélum og er óhætt að segja að fyrirtækið fari nýjar leiðir í kynningu á öryggi um borð. Í nýja öryggismyndbandinu frá Icelandair er lagt mikið upp úr því að hafa sjónrænan þátt upplýsinganna svo eftirtektarverðan að áhorfandinn geti ekki annað en hlustað og tekið eftir.

Það er mikil ró yfir myndbandinu. Upplýsingarnar í því eru vissulega í eðli sínu ef til þess fallnar að stilla upp því sem gæti farið úrskeiðis, en sú yfirvegun og kyrrð sem sýnd er á skjánum gerir sitt til að afstýra kvíða og hræðslu og leyfa farþeganum þess í stað bara að njóta. Öryggið er orðið aðlaðandi. Til að mynda eru neyðarljós í gólfi komin í búning norðurljósanna og það að búa sig undir nauðlendingu verður jafn notalegt og að teygja úr sér eftir smávegis hvíld við árbakka. Myndbandið kemur öllu þessu til leiðar, án þess þó að gera lítið úr mikilvægi öryggis.

Myndbandið var tekið upp víðsvegar um Ísland á haustmánuðum og má þar á meðal nefna Jökulsárlón, Þórsmörk, Stjórnarfoss og Eyjafjöll.

 

 

Handrit og hugmynd voru unnin af Íslensku auglýsingastofunni. Leikstjóri er Rúnar Ingi Einarsson hjá Pegasus, kvikmyndataka var í höndum Karls Óskarssonar og tónlist er úr smiðju Úlfs Eldjárns.