Pingdom Check


10/17/2024 | 2:00 PM

Nýtt samstarf við Air Greenland og Atlantic Airways

Icelandair í samstarf við Air Greenland og Atlantic Airways um öflugar flugsamgöngur á Norðurslóðum.

Icelandair skrifaði undir tvo samstarfssamninga um sammerkt flug á Hringborði Norðurslóða (e. Arctic Circle) í dag – við Air Greenland og færeyska flugfélagið Atlantic Airways.

Með þessum samningum geta félögin boðið öflugar tengingar milli Grænlands og Færeyja annars vegar og Norður-Ameríku og Evrópu hins vegar, í einum flugmiða í gegnum Ísland. 

Gert er ráð fyrir að tvíhliða samningar um sammerkt flug taki að fullu gildi á fyrsta ársfjórðungi næsta árs í tilfelli Atlantic Airways og Icelandair og um mitt næsta ár hjá Air Greenland og Icelandair.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Við eigum það sameiginlegt að vera eyþjóðir á Norðurslóðum sem reiða sig á öflugar flugsamgöngur til þess að tengja við umheiminn og stuðla að hagsæld. Með formlegu samstarfi flugfélaganna og þeim slagkrafti sem því fylgir munum við styrkja samgöngur á vestnorræna svæðinu og á Norðurslóðum enn frekar sem er mikilvæg forsenda framtíðaruppbyggingar í þessum heimshluta. Þá erum við ánægð með að tengja Grænland og Færeyjar inn í okkar víðtæka sölu- og dreifikerfi í Norður-Ameríku, Evrópu og á fjarmörkuðum eins og Asíu. Þannig komum við þessum frábæru áfangastöðum enn betur á kortið enda eru mikil tækifæri í ferðaþjónustu á þessum svæðum. Á undanförnum árum hefur Hringborð Norðurslóða fest sig í sessi sem einn mikilvægasti vettvangur umræðu um málefni Norðurslóða í heiminum og með árlegu þingi sínu hér á landi gert Ísland að miðstöð þessarar umræðu. Það er því sérstaklega ánægjulegt að skrifa undir þessa samninga hér á þessum vettvangi.“

Jóhanna á Bergi, forstjóri Atlantic Airways:  

„Við erum spennt fyrir auknu samstarfi við systurþjóð okkar í norðvestri. Samstarfið mun tengja okkur enn betur saman og styrkja sameiginlegar stoðir. Samkomulagið er ekki eingöngu mikilvægt fyrir fyrirtækin viðskiptalega heldur einnig fyrir löndin okkar, þar sem það stuðlar að auknum tengslum og vaxtartækifærum.

Tengingar við umfangsmikið leiðakerfi Icelandair hefur marga kosti í för með sér og gerir okkur kleift að vinna saman að því að veita farþegum okkar betri og sveigjanlegri þjónustu. Með því að tengja leiðakerfin aukum við sýnileika okkar og vinnum saman að því að festa þjóðirnar í norðvestri í sessi sem spennandi áfangastaði.“

Jacob Nitter Sørensen, forstjóri Air Greenland:

„Þetta er tímamótasamningur og við erum hæstánægð með að efla tengingar á milli Norðurlanda og um Norðurslóðir. Með samstarfi við Icelandair og Atlantic Airways byggjum við brýr milli samfélaga okkar, opnum nýjar gáttir og gerum ferðamönnum enn auðveldara að kynnast ríkri menningu og stórfenglegri náttúru okkar norðlægu landa. Saman búum við til tengingar og styrkjum böndin á milli Norðurlanda og Norðurslóða, frá Færeyjum og Íslandi til Grænlands og áfram til Núnavút í Norður-Kanada. Samstarfið er spennandi varða á leið okkar að því að tengja norðrið betur en nokkru sinni fyrr.“

Nánar um samstarfsverkefni okkar

Við erum að efla markaðssókn okkar og styrkja leiðakerfi Icelandair með aukinni áherslu á samstarf við önnur flugfélög. Skoðaðu síðuna um samstarfsflugfélög til að kynna þér nánar sammerkt flug og samstarfsaðila.