Pingdom Check
12/18/2024 | 2:00 PM

Nýtt samstarf: Icelandair og ITA Airways

Við hjá Icelandair erum ávallt að leita leiða til auka úrvalið okkar af ferðamöguleikum.

Að þessu sinni kynnum við nýjan samstarfssamning um sammerkt flug með ITA Airways sem opnar fyrir nýjar tengingar og betra aðgengi að spennandi áfangastöðum.

Icelandair og ITA Airways undirrita samstarfssamning

Icelandair og ítalska flugfélagið ITA undirrituðu í dag samning um sammerkt flug. Samningurinn gerir viðskiptavinum kleift að ferðast á auðveldan máta um leiðakerfi flugfélaganna tveggja og opnar þannig spennandi ferðamöguleika. Hægt er að bóka sammerkt flug frá og með deginum í dag (18. desember) fyrir ferðir sem hefjast frá og með 20. janúar 2025.

Í fyrsta áfanga verða opnaðar tengingar í gegnum Róm á milli Íslands og fjölda áfangastaða ITA, meðal annars Bologna, Flórens, Feneyja og Napólí. Með samningnum geta viðskiptavinir ferðast á einum miða með farangurinn innritaðan alla leið á lokaáfangastað. Flugfélögin munu útvíkka samstarfið og bæta við tengingum um marga af sameiginlegum áfangastöðum flugfélaganna í Evrópu. Icelandair flýgur daglega til Mílanó og Rómar yfir sumartímann og samhliða samstarfssamningnum hefur Icelandair aukið tíðni til Rómar yfir vetrartímann upp í fjögur flug á viku.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:  

„Það er ánægjulegt að bæta ITA við öflugan hóp samstarfsflugfélaga okkar. Í samstarfi við ITA getum við boðið viðskiptavinum okkar góðar tengingar á milli leiðakerfa flugfélaganna tveggja. ITA flýgur til margra spennandi áfangastaða og er félagið þekkt fyrir framúrskarandi þjónustu. Við hlökkum til að bjóða viðskiptavini ITA velkomna um borð og að efla tengingar okkar um Ítalíu og víðar.“

Andrea Benassi, forstjóri ITA Airways:  

„Það er okkur sönn ánægja að undirrita þennan samstarfssamning við Icelandair í dag. Samningurinn er í takt við stefnu ITA Airways um að styrkja leiðakerfið og með honum opnum við öflugar tengingar fyrir farþega um Róm og Reykjavík. Samningurinn við Icelandair er 37. samstarfssamningurinn sem við gerum, frábær árangur sem við höfum náð á einungis þremur árum.“ 

Nánar um samstarfsverkefni okkar

Við erum að efla markaðssókn okkar og styrkja leiðakerfi Icelandair með aukinni áherslu á samstarf við önnur flugfélög. Skoðaðu síðuna um samstarfsflugfélög til að kynna þér nánar sammerkt flug og samstarfsaðila.