Samstarf Icelandair og JetBlue hafið
Icelandair hóf í dag sölu á flugi sem er samkennt (codashare) bandaríska flugfélaginu JetBlue, en samningur um samstarf félaganna var undirritaður á Icelandair Mid-Atlantic kaupstefnunni í Laugardalshöll í vor. Samkomulagið hefur nú verið staðfest af bandaríska samgönguráðuneytinu (DOT) og flugmálastofnun (FAA).
Samningurinn felur í sér að flug JetBlue milli Boston og New York og eftirtalinna borga eru frá og með deginum í dag samkennd Icelandair, verða “FI” flug:
- Austin, Texas (AUS)
- Detroit, Michigan (DTW)
- Orlando, Florida (MCO)
- Pittsburgh, Pennsylvania (PIT)
- Raleigh-Durham, North Carolina (RDU)
- Washington D.C. (DCA)
Fleiri áfangastaðir verða kynntir síðar og jafnframt mun Jetblue kynna fjölda fluga Icelandair sem hluta af sínu leiðakerfi.
Samningurinn eykur þægindi viðskiptavina beggja félaga og einfaldar tengingar milli fluga. “Með samningnum eru við að styrkja leiðakerfi okkar, ná til fleiri viðskiptavina og gefa þeim aukna valmöguleika”, sagði Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair við undirritun samningsins í vor.
“Við erum stöðugt að leita leiða til þess að vaxa og þróa samstarf við bestu flugfélög heims. Icelandair er frábær samstarfsaðili með spennandi og vaxandi leiðakerfi milli Norður-Ameríku, Íslands og Evrópu og gefur viðskiptavinum okkar ný tækifæri”, sagði Robin Hayes, forstjóri JetBlue við sama tilefni.
JetBlue flýgur að meðaltali 825 flug daglega og flytur rúmlega 30 milljón farþega árlega til 87 borga í Bandaríkjunum, Karabíska hafinu og Mið-Ameríku.