Í um 11 ár hefur Icelandair hjálpað langveikum börnum og þeim sem búa við sérstakar aðstæður að láta ferðadrauminn rætast í gegnum ferðasjóð Vildarbarna. Sjóðurinn er fjármagnaður með framlögum farþega Icelandair með kortagreiðslu eða afgangsmynt, með framlögum félaga í Saga Club í formi Vildarpunkta og stofnframlagi Icelandair með rausnarlegum stuðningi Sigurðar og Peggy Helgasonar.
Nú býðst áhugasömum ný leið til að styðja ferðasjóð Vildarbarna. Vaðfugl Icelandair er samstarfsverkefni okkar við Epal og hönnuðinn Sigurjón Pálsson. Flest okkar þekkja þennan litríka og fallega fugl sem verður í takmarkaðan tíma í boði í litum Icelandair.
Sigurjón Pálsson er íslenskur hönnuður og rithöfundur sem hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir hönnun og skrif. Vaðfuglarnir, sem eru hans hönnun, hafa notið mikilla vinsælda og verið seldir víða um heim. Fyrirmyndirnar sækir hann í hina ástsælu íslensku vaðfugla; spóa, stelk og sendling.
Verkefninu er ætlað að vekja athygli á íslenskri hönnun og styrkja um leið sjóð Vildarbarna. Allur ágóði af sölu Vaðfugls Icelandair rennur til ferðasjóðs Vildarbarna. Kaup á fuglinum eru því góð leið til að prýða heimilið litagleði og láta um leið gott af sér leiða.
Vaðfugl Icelandair er fáanlegur í verslunum Epal og í vefverslun. Frekari upplýsingar um Vildarbörn er að finna á vildarborn.is