Pingdom Check


02/28/2024 | 2:00 PM

Að halda merkjum Íslands á lofti um allan heim

Við vinnum hörðum höndum að því daglega að kynna Ísland fyrir umheiminum, um leið og við leggjum okkar að mörkum að skapa jákvæða og minnisstæða upplifun fyrir viðskiptavini okkar. Því er það mikill heiður að fá viðurkenningu fyrir verk vel unnið og frábæran árangur af hálfu starfsfólks okkar. Nýlega höfum við unnið til nokkurra verðlauna, sem hvetja okkur áfram í starfi. Við erum ótrúlega stolt og auðmjúk af því að hljóta þessar viðurkenningar, sem staðfesta að vinna okkar síðustu ár hafi skilað sér.

Icelandair hlýtur íslensku ánægjuvogina

Blog_Aenaegjuvogin_23_2.JPG

Þann 19. janúar síðastliðinn fékk Icelandair verðlaun íslensku ánægjuvogarinnar 2023. Verðlaunin eru veitt þeim fyrirtækjum sem skara fram úr í ánægju á sínum markaði.

Undanfarin misseri höfum við hjá Icelandair unnið að stækka leiðakerfið okkar auk þess að þróa fjölbreyttar stafrænar þjónustulausnir sem efla upplýsingaflæði til viðskiptavina. Verðlaunin eru því til marks um að við séum á hárréttri leið.

Við hlökkum til að halda áfram á þessari braut og skapa enn ánægjulegri stundir fyrir viðskiptavini okkar, bæði á ferð og flugi með okkur í háloftunum eða í allri þeirri umsýslu sem ferðalaginu fylgir.

Bogi Nils valinn Markaðsmanneskja ársins

Í byrjun febrúar var forstjórinn okkar, Bogi Nils Bogason, útnefndur markaðsmanneskja ársins af ÍMARK, samtökum markaðsfólks á Íslandi. Verðlaunin eru veitt fyrir síðastliðin tvö ár, bæði 2022 og 2023.

Markaðsstarf Icelandair síðustu ára hefur verið öflugt, sem má kannski teljast óvenjulegt í því umhverfi sem flugfélagið hefur starfað í. Heimsfaraldur setti stórt strik í reikninginn við rekstur, þar sem flug féll niður um tíma og koma ferðafólks til Íslands varð nánast að engu.

markadsmanneskja_arsins.jpg

Réttar ákvarðanir á krefjandi tímum

Þrátt fyrir þessa mótvinda var ákveðið að halda áfram þeirri vegferð sem hafin var. Stórir kynningarviðburðir hafa farið fram bæði vestan hafs og í Evrópu, helst má nefna Around the Corner í London árið 2022 og í Boston árið 2023, og Taste of Iceland sem hafa verið haldnir á áfangastöðum í leiðakerfi okkar. Vinna við endurmörkun á vörumerki Icelandair hélt einnig áfram þrátt fyrir erfitt starfsumhverfi, og fékk Icelandair afhentan Lúðurinn á uppskeruhátíð markaðsfólks fyrir Endurmörkun ársins 2022.

Bogi varð einnig meira áberandi í umræðunni en áður, þar sem staða fyrirtækisins var rædd opinskátt, og til hvaða aðgerða þurfti að grípa til að standa af sér erfiðleikana sem heimsfaraldurinn skapaði.

Nokkur orð frá Boga sjálfum um viðurkenninguna:

„Það er mikill heiður að taka við verðlaununum markaðsmanneskja ársins. Verðlaunin eru auðvitað fyrst og fremst til marks um það frábæra starf sem starfsfólk Icelandair hefur unnið undanfarin ár. Nú er farþegafjöldi Icelandair orðinn sambærilegur við metárið 2019 – árangur sem fá flugfélög í heiminum geta státað af. Áhersla okkar í markaðsmálum er að halda merkjum Íslands á lofti um allan heim enda fara hagsmunir Icelandair og Íslands saman.“