Nýtt stuðningstákn fyrir íslenskar kvennaíþróttir
Í aðdraganda Evrópumeistaramóts kvenna í knattspyrnu 2022 var nýtt handamerki stuðningsfólks kynnt til sögunnar. Upphaflegur tilgangur þessa stuðningstákns var að sýna íslenska kvennalandsliðinu stuðning á EM – og í kjölfarið kvennaíþróttahreyfingunni allri.
Hvað þýðir stuðningstáknið og hvernig er það?
Merkið er myndað með því að gera friðarmerki með báðum höndum. Hendurnar mætast svo á vísifingrum og höndunum lyft í höfuðhæð. W-ið sem myndast stendur bæði fyrir Women og Winning.
Tilgangurinn með því er að gera stuðningsfólki auðvelt fyrir að styðja kvennalandsliðið með öðrum hætti en tíðkast hefur hjá íslenskum stuðningsmönnum í gegnum tíðina, þ.e. með Víkingaklappinu, og leggja í staðinn áherslu á hvers virði kvennalið eru stuðningsfólki – baráttuandinn í gegnum súrt og sætt er virðingarverður og þær eiga skilið að við styðjum þær af heilum hug, sama hver íþróttin er.
Vertu með!
Við vonumst til þess að allt stuðningsfólk íslenskra kvennaíþrótta nær og fjær taki þessu merki opnum örmum og leitist við að nota það á Evrópumeistaramóti kvenna í knattspyrnu í sumar – og í hvert skipti sem konur keppa fyrir Íslands hönd, sama hver íþróttagreinin er.
Tökum höndum saman og notum merkið á leikjum, á samfélagsmiðlum, og hvar annars staðar þar sem kvennaíþróttir eiga sviðið.
Við erum stolt af íþróttakonum landsins og styðjum þær í orði og á borði.
Sjáðu hvaða leikir eru næstir hjá íslenska liðinu á EM og taktu flugið út á leik!