Hvað er við að vera á Gran Canaria?
Gran Canaria býr yfir fjölbreytilegu landslagi og afþreyingu fyrir ferðamenn á öllum aldri.
Við strandlengjuna standa lítil falleg þorp sem gaman er að kanna.
Í austri er flatlendi og fjölbreyttur landbúnaður. Flugvöllurinn er staðsettur mitt á milli höfuðborgarinnar Las Palmas í norðri og vinsælasta ferðamannastaðarins á suðurströndinni, Maspalomas. Margir golfvellir eru staðsettir nálægt Las Palmas og Maspalomas.
Í Maspalomas er vinsæli vatnagarðurinn Aqualand, sem og aðrir þemagarðar. Ef börn eru ekki með í för, er líflegt næturlíf og notaleg kvöldstemning í boði um alla eyju.
Í suðri eru hinar stórkostlegu sandöldur og vinsælar strendur. Á vesturhluta eyjunnar er landslagið stórbrotið, þar sem Mirador de Balcón áningarstaðurinn stendur upp úr. Fyrir miðju er eyjan hálend og frá hæsta tindinum, Pico de las Nieves, er stórkostlegt útsýni í allar áttir.