Pingdom Check

Einn af þekktustu skíðabæjum Ítala

Flogið er með áætlunarflugi til og frá Verona. Akstur til og frá flugvelli er í boði gegn aukagjaldi fyrir farþega með flug og gistingu hjá Icelandair VITA. 

Athugið að skíðabúnaður er ekki innifalinn í verðum, heldur þarf að bæta því við gegn aukagjaldi fyrir þá sem þess óska, það er hægt að gera við bókun eða síðar.

Fararstjóri á vegum Icelandair VITA verður á svæðinu frá 21. - 28.desember.
Fyrir brottfarir 28.desember og 4.janúar verður ekki fararstjóri á vegum Icelandair VITA.
Frá og með 11.janúar - 1 mars  verða fararstjórar á vegum Icelandair VITA. 


Til Madonna flykkist skíðafólk á öllum aldri hvaðanæva að úr heiminum á hverju ári. Bærinn stendur í dalnum Val Rendena í vesturhluta Trentino héraðsins rétt við rætur vestur-Dólómítanna.

Þetta fallega fjallaþorp liggur í rúmlega 1.500 metra hæð yfir sjávarmáli og eru bæjarbúar um það bil þúsund talsins. Stutt er í skíðalyftur og kláfa úr miðbænum og liggja hæstu brekkurnar upp í allt að 2.600 metra hæð. Skíðabrekkurnar eru eins fjölbreyttar og þær eru margar og henta jafnt byrjendum sem lengra komnum.

Í miðbænum mynda hótelin umgjörð um tvö torg, en það er skemmtilegt göngusvæði, með fjölda veitingastaða og verslana. 

Fjallasvæðið

Fjallasvæðið skiptist í fjögur mismunandi skíðasvæði sem hægt er að skíða á milli og getur fólk valið um svartar, rauðar eða bláar brekkur, allt eftir getu hvers og eins. Svæðin Pradalago og Grosté eru auðveldust á meðan svæðin Spinale og 5 Laghi fela í sér meiri áskoranir og ögranir.

Skíðasvæðið

Skíðasvæðið er gríðarstórt, samtals um 150 km af skíðabrautum. Lengsta einstaka skíðabrautin telur heila fimm kílómetra. Lyftur eru 59 talsins og flestar eru þær opnar frá kl. 8.30 til 16.30 alla daga.

Boðið er upp á skíðakennslu á svæðinu fyrir alla aldurshópa. Hægt er að skíða frá Madonna yfir í þrjá nærliggjandi smærri skíðabæi, Folgarida, Marilleva og Pinzolo. Fyrrihluta dags og fram yfir miðjan dag er lífið í skíðabrekkunum en eftir að miðdegishvíldinni eða „síestunni“ lýkur og fram á kvöld færist líf í bæinn sjálfan. Miðbærinn er afar heillandi og gefa fjöldi skemmtilegra kaffihúsa og fjölbreyttra verslana honum skemmtilegan blæ.


Hagnýtar upplýsingar


Fararstjóri á vegum Icelandair VITA verður á svæðinu frá 21. - 28.desember.Fyrir brottfarir 28.desember og 4.janúar verður ekki fararstjóri á vegum Icelandair VITA.Frá og með 11.janúar - 1 mars  verða fararstjórar á vegum Icelandair VITA.

Ferðamannaskatturinn í Madonna er ekki innifalinn í verði ferðarinnar. Hann greiðist á hóteli við brottför. Skatturinn er 2 - 4 Evrur á mann á nótt.
Gildir aðeins fyrir 14 ára og eldri. 


Akstur við komu: Í pakkaferðum til og frá Verona (flug og gisting) er hægt að kaupa rútuferð til og frá flugvelli í Verona gegn gjaldi.  Þegar fararstjóri er á svæðinu tekur hann á móti gestum á flugvellinum í Verona er síðan haldið með rútu til Madonna.  Ferðin tekur rúmar þrjár klst. og er stoppað einu sinni á leiðinni svo fólk geti farið á snyrtingar og fengið sér hressingu. Í bílnum fer fararstjóri yfir það helsta sem hafa þarf í huga í komandi skíðaviku, bæði hvað varðar hótelin, bæjarlífið og skíðalöndin. 

Hótelin:

Mikilvægt er að þeir sem ferðast saman láti vita afþví fyrirfram svo hægt sé að láta viðkomandi hótel vita sem geta svo í framhaldi gert viðeigandi ráðstafanir í matsal, en ef það er ekki gert er ekki hægt að tryggja að ferðafélagar sem ekki eru á sömu bókun fái borð saman. Við komu í matsal fyrsta kvöldið er rétt að bíða eftir þjóni eða yfirþjóni og er fólki þá vísað  til borðs sem það hefur síðan út vikuna. Drykkjarföng getur fólk geymt milli daga.  Allir gestir eru hvattir til að nota öryggishólf á herbergjum. Yfirleitt er ekki minibar á herbergjum en víðast hvar er hægt að fá einn slíkan sé þess óskað. Mörg hótelanna hafa kæliskápa í herbergjum. Kranavatnið á hótelunum er gott og öllum er óhætt að drekka það.

Heilsulindir: 

Yfirleitt bjóða ítölsku skíðahótelin upp á heilsulind. Ætlast er til að fólk sitji á handklæðum í sauna klefanum og það haft í huga að heilsulindin er fyrst og fremst hvíldarsvæði en ekki leikvöllur barna. Á sumum hótelum er aldurstakmark í heilsulindina sem miðast við 14 ára aldur. Mismunandi er hvenær heilsuaðstaða hótela er opin, en yfirleitt opnar hún um kl. 16:00 og er opin til kl. 18:30 til 19:30, á sumum hótelum þarf að panta tíma í heilsuaðstöðuna fyrirfram. Aðgangur barna yngri en 14-15 ára er yfirleitt bundinn því að þau séu í fylgd foreldra og þess gætt að ekki er um leiksvæði að ræða. Einstaka hótel leyfa ekki börn  á heilsusvæðinu.

Gott að hafa í huga þegar farið er í fjallið:

Muna skal að hafa með varaáburð og sólarvörn. Skylda er fyrir alla 17 ára og yngri að hafa skíðahjálma. Að sjálfsögðu er mælt með því að allir noti hjálm og jafnvel bakbrynju. Góð sólgleraugu og skíðagleraugu eru nauðsynleg. Skíðagrímu er gott af hafa ef spáð er köldu veðri.  Aldrei skal stöðva undir blindhæð. Muna skal að skíða með aðgát og hafa í huga að sá sem er neðar í brekkunni á alltaf réttinn. Ekki drekka kranavatn á veitingastöðum eða lyftustöðvum í fjallinu. Ráðlagt er að vera alltaf með símanúmer fararstjóra í farsímanum - ef eitthvað skyldi bera útaf. Mikið úrval af veitingastöðum er í fjallinu og getur verið gott að panta borð fyrirfram. 

Skíðaskóli:

Þeir sem vilja fara í skíðaskóla geta snúið sér til fararstjóra ef þeir óska eftir aðstoð eða upplýsingum varðandi innritun og verð. Allir hafa gott og gaman að því að fara í kennslu og best er að fara í nokkra daga en einnig er hægt að fá einn og einn dag í einkakennslu. 
Best er að ganga frá pöntun í upphafi ferðar því þegar líða tekur á vikuna er oft erfitt að fá tíma. Nazionale-Des Alpes heitir skíðaskólinn sem fararstjórnin mælir með, þeir bjóða ýmis mismunandi  námskeið og ættu flestir að finna eitthvað við hæfi. Skólinn er staðsettur ofan við Hotel Milano og hægt að skoða verð hérna.
Strætisvagn gengur um þorpið og upp í Campo Carlo Mango þar sem er bæði gönguskíðasvæði og gott svæði fyrir byrjendur. 

Skíðabúnaður og leiga:

Það eykur ánægju ykkar að hafa skíðabúnaðinn í góðu lagi og rétt stilltan og mikilvægt að hafa vel áborin skíði og láta brýna kantana vel.  Það er mun auðveldara að skíða ef þau renna vel og það eykur öryggið ef kantarnir eru í lagi. Fararstjórar Icelandair VITA mæla með því að ekki sé látið bera á skíðin fyrr en út er komið, en þar eru  sérfræðingar sem vita nákvæmlega hvernig snjórinn er í fjallinu að hverju sinni. Boðið er upp á að brýna kanta og bræða undir skíði í mörgum verslunum í Madonna.

Það er góð venja að þurrka skíðaskóna á hverju kvöldi. Þar sem góð aðstaða er á hótelum er nóg að setja skóna á þurrkstandinn, þar sem það er ekki fyrir hendi getur verið nauðsynlegt að taka innri skóinn og þurrka hann upp á herbergi. Þegar stoppað er í fjallinu í hádeginu og kaffitímum er mikilvægt að ganga vel og snyrtilega frá skíðunum, láta þau ekki liggja eftir í snjónum heldur setja þau í skíðastatífin. Gott getur verið að víxla skíðunum við ferðafélagann svo þau verði ekki tekin í misgripum.

Tímamismunur: 

Ítalía er einni klukkustund á undan Íslandi á veturna og tveimur tímum á undan á sumrin.

Greiðslukort og hraðbankar:

Hraðbankar eru á nokkrum stöðum. Það eru þrír hraðbankar í Madonna, einn er á Piazza Righi torginu við hliðina á matvöruversluninni Famiglia Cooperativa. Einn á Piazza Brenta Alta torginu við hliðina á Romantica Plaza hótelinu og einn rétt ofan við Hotel Milano gegnt Olimpionico Sport. Lang flestir þjónustuaðilar og verslanir á Ítalíu taka öll helstu kreditkort.

Tryggingar

Frá 1.janúar 2022 hefur verið skylda að allir skíðamenn hafi ábyrgðartryggingu í fjallinu, ef þeir valda slysi á öðrum. Mikilvægt er því að hafa samband við ykkar tryggingar til að kanna hvort slík ábyrgðartrygging sé innifalin. Ef hún er innifalin þarf að fá staðfestingu á henni, sem gæti þurft að framvísa í fjallinu og því mikilvægt að hafa hana við hendi. Einnig er hægt að kaupa ábyrgðartryggingu þegar komið er út og kostar hún 3-4 evrur fyrir hvern dag í fjallinu og þarf að virkja hana við skíðapassann.  Við ráðleggjum einnig að allir hafi meðferðis evrópska tryggingakortið eða staðfestingu frá tryggingarfélagi varðandi ferða- og slysatryggingar. 

***Við bendum á að gott er að vera búin að kynna sér tryggingarskilmála hjá ykkar tryggingarfélagi og fá ráðleggingar þar hvað hentar best. Þar sem reglur og skilmálar geta verið mjög misjafnir og jafnvel þörf á að kaupa viðbótartryggingu í einhverjum tilfellum. Mikilvægt er að vera með góðar tryggingar. 

Dagskrá

Hérna fyrir neðan má sjá drög að því hvernig dagskráin í fjallinu verður, m.v  að fararstjórar á vegum Icelandair VITA séu á svæðinu (sjá nánar undir hagnýtar upplýsingar). Nokkrum dögum fyrir brottför fá allir farþegar sendar nánari upplýsingar í tölvupósti um skipulag ferðarinnar, dagskrá, verð á skíðapössum og aðrar mikilvægar upplýsingar.

Skíðagleði á sunnudegi

Hittum fararstjórana á toppnum við Pradalago kláfinn kl. 10:00 og þaðan verður farið í skoðunarferð um svæðið. Hér er möguleiki á að skipta liði, þannig að þeir sem hafa minni skíðareynslu fái brekkur við hæfi og þeir sem vilja fara hraðar yfir fái svalað þorsta sínum. Vanari hópurinn fer væntanlega yfir í eina af aðallyftum bæjarins Cinque Laghi Express og kemur sér svo yfir í Groste, hinum megin í dalnum. Þeir sem styttra eru komnir einbeita sér að bláu brekkunum í grennd við Pradalago og síðar í Groste. Við munum fara í stutt kaffistopp rétt fyrir hádegi og ekki í hádegismat fyrr en upp úr 13:30, sem gerir það að verkum að við fáum meira pláss, bæði í brekkunum og á veitingastöðum. Stefnt er að því að hóparnir tveir hittist í hádegismat.

Mánudagur

Frjáls dagur.

Þriðjudagsævintýri - Folgarida & Marilleva 

Hist verður á toppnum við Pradalago kláfinn kl. 09:30. Hér er eins og fyrsta daginn möguleiki á að skipta liði. Báðir hóparnir fara yfir til nágrannabæja Madonna og skíða yfir til Marilleva og Folgarida – hvor á sínum hraða. Báðir bæirnir bjóða upp á frábærar skíðabrekkur og ferðin tekur meirihluta dagsins. Þeir sem vilja fara hægar yfir fara með Lóu í rólegheitum í áttina að Folgarida þar sem hópurinn er verðlaunaður með einni lengstu bláu brekku á svæðinu. Hóparnir munu líklega hittast í kaffi á notalegum stað við eina brekkuna og þá er líka möguleiki að hittast í hádegismat á flottum útsýnisstað á svæðinu.

Miðvikudagur

Frjáls dagur.

Fimmtudagsfjör: Pinzolo EÐA Bleika slaufan

Þennan dag fer hraðari hópurinn væntanlega til Pinzolo, eða skíðar uppáhalds brekkur Jónasar. Skíðað verður fram að hádegi og þar á eftir er frjálst.
Þeir sem vilja fara hægar yfir fara með Lóu í „Bleiku slaufuna“ þar sem við njótum þess að skíða allar skemmtilegustu ljósrauðu (og bláu) brekkurnar í Madonna. Báðir hópar hittast á toppnum við Cinque Laghi Express kláfinn kl. 09:30.

Föstudagur

Frjáls dagur.

ATH. Fararstjórar áskilja sér rétt til að fella niður eða fresta ferðum ef veðurútlit er ótryggt eða breyttar aðstæður. Upplýsingar um það munu birtast á facebook ferðarinnar sem kemur fram hér að ofan.

Allar ferðir eru uppsettar af fararstjóra og allir ferðast á eigin ábyrgð. Ferðaskrifstofan Icelandair VITA eða fararstjóri eru ekki ábyrg ef eitthvað ber út af.

Veitingastaðir í bænum

Antico Focolare er góður og skemmtilegur veitingastaður. Hægt er að fá pizzur formaðar eins og andlit sem er skemmtileg upplifun fyrir börnin.

Il Gallo Cedrone er mjög flottur veitingastaður í kjallaranum á Bertelli hótelinu. Hefur áður hlotið Michelin stjörnu.

Home Stube er veitingastaður sem býður upp á austurrískan matseðil, eru með gott úrval af bjór. Þessi staður hentar einnig fyrir grænkera.

Le Roi er einn vinsælasti pizzastaður Madonna, eru einnig með steikur og salat. Gott verð og hröð þjónusta. 

Suisse Cantina, flottur veitingastaður sem býður upp á vandaðan mat og nota að mestu hráefni úr héraði. Þessi staður hentar einnig fyrir grænkera.

Bar Dolomiti eru með bestu panini í bænum og góðan bjór. Einfalt, fljótlegt og þægilegt. 

Nabucco er lítill og huggulegur veitingastaður í kjallaranum á Ferrari barnum. Býður upp á einstakan matseðil og flott úrval af góðum vínum. 

Ítalir borða flestir milli 20:00-22:00 og þá eru allir veitingastaðir fljótir að fyllast.
Gott er að panta borð ef farið er út að borða eftir kl. 20:00 og þá er hægt að láta hótelið hringja fyrir sig.
Flestir pizza staðir bjóða upp á 10% afslátt ef sýnt er nafnspjald frá hótelunum.

Veitingastaðir í skíðabrekkum: 

Stoppani er efst á Gröste svæðinu. Það er flottur restaurant á efri hæðinni, self service og einnig pizza staður í kjallaranum.

Graffer er self service staður á Gröste svæðinu. Gott er að stoppa í Graffer í hádeginu og þar er hægt að tilla sér í sólstóla. 

Boch er góður veitingastaður neðarlega á Gröste svæðinu. Hann býður upp á self service og restaurant.

Chalet Fiat er flottur og nýuppgerður veitingastaður efst á Spinale svæðinu. Þeir bjóða upp á self service og glæsilegan restaurant. 

Malaga Montaniole (Fjósið) Er staðsett í brekku 73 á Spinale svæðinu. Bjóða upp á self service.

Vivianni er á Pradalago svæðinu, staðurinn býður upp á self service á efri hæðinni, restaurant og lítið kaffihús á neðri hæðinni. 

Zeledria er skemmtilegur veitingastaður á Pradalago svæðinu sem er þekktur fyrir steinasteik. Skíðað er niður braut 50 og út úr henni í braut nr. 54 Endilega prófið hann eitt hádegið. 

Gott er að panta borð með fyrirvara ef þið ætlið að stoppa á veitingastað í fjallinu.

Verslanir: 

Eru yfirleitt opnar: 9-12:30 og 15:30-19:30. Matvöruverslanir eru tvær, ein á hvoru torginu. Úrval verslana er í Madonna, sælkerabúðir, tískuverslanir, íþróttabúðir o.fl. o.fl.

Farangursheimild

Innifalið í pakkaferð (flug og gisting) með Icelandair VITA til Madonna er ein taska hámark 23 kg og handfarangur hámark 10 kg. 

*** Athugið að skíðabúnaður er ekki innifalinn í verðum, heldur þarf að bæta því við gegn aukagjaldi fyrir þá sem þess óska, það er hægt að gera við bókun eða síðar.
Skíðabúnaður má samanstanda af einu skíðapari, einu pari af skíðastöfum, einu pari af skíðaskóm og einum hjálmi. Snjóbrettabúnaður má samanstanda af einu snjóbretti, einu pari af snjóbrettaskóm og einum hjálmi.  Búnaðinum má pakka í tvær töskur: eina fyrir skíði og skíðastafi, aðra fyrir skó og hjálm. Ekki er heimilt að hafa fatnað með í töskunni. 

Innifalið í pakkanum

Flug báðar leiðir

Economy Standard
Báðar leiðir
Innrituð taska 23 kg
Handfarangurstaska 10 kg
100% Vildarpunktasöfnun

Hótel

Skoðaðu úrval gististaða í bókunarvél

Gististaðir

fráISK 188.600 Verð á mann m.v. 2 fullorðna
Ferðaskipuleggjandi með leyfi frá Ferðamálastofu