Sitges er heillandi strandbær við Miðjarðarhafið, aðeins um 35 km suður af Barcelona. Bærinn er einn helsti áfangastaður ferðamanna sem vilja njóta þess besta sem Katalónía hefur upp á að bjóða. Staðurinn er þekktur fyrir 17 fallegar strendur, líflegt mannlíf og fjölbreytta afþreyingu. Allar strendurnar eru einstakar á sinn hátt og mismunandi í lögun og stærð. Flestar eru með aðstöðu nálægt eins og sturtur, salerni og veitingastaði. Nokkrar þeirra eru nektarstrendur fyrir þau allra frjálslegustu.
Í borginni er einstaklega afslappað, frjálslegt og skapandi samfélag og því hefur hún verið aðdráttarafl fyrir listafólk alls staðar að.
Hverfin og svæðið
Í Sitges eru nokkur mismunandi hverfi, hvert með sínu sniði.
Í miðborginni er að finna margar vinsælar verslanir, veitingastaði, kaffihús og fallegar byggingar. Í gamla bænum eru göturnar þröngar og iðandi af lífi og þar leynast falleg torg þar sem hægt er að setjast niður og njóta lífsins. Þar er til dæmis að finna Cap de la Vila sem er söguleg bygging og oft kölluð miðpunktur Sitges. Þar mætast nokkrar aðalgötur og torgið sjálft er vettvangur viðburða og hátíða.
Í 10 mínútna göngufjarlægð er hið friðsæla Poble Sec-hverfi sem er rólegur hluti borgarinnar og kjörinn staður til að slaka á og kynnast lífi heimamanna. Garraff-náttúrugarðurinn er þar rétt hjá.
Vinyet og Terramar eru einnig aðlaðandi hverfi með fallegan arkítektúr, skemmtilega leikvelli fyrir börn og 18 holu golfvöll við sjávarsíðuna, hjá golfklúbbnum Terramar Golf Club.
Við aðalhöfnina í Sitges er dásamlegt útsýni og gaman að fylgjast með skipunum koma í höfn. Þetta er ein stærsta höfnin við Miðjarðarhafið og nokkrir af bestu veitingastöðunum á svæðinu eru þarna í nágrenninu.
Sagan
Saga Sitges-svæðisins er löng en borgin fór að blómstra þegar hún varð hafnarborg og síðar aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Fyrstu heimildir um strandbar ná allt aftur til 1913 og talið er að hann hafi verið fyrsti strandbar Katalóníu. Í dag kallast hann „El Chiringuito“. Byggingarnar á svæðinu endurspegla ríka og fjölbreytta sögu og göngutúr um gamla bæinn gefur innsýn í gotneska stílinn, endurreisnartímabilið og nútíma byggingaraðferðir.
Afþreying
Aqualeon vatnagarðurinn er í u.þ.b. 40 mínútna akstursfjarlægð frá Sitges. Það tekur um klukkustund að keyra í PortAventura World sem er einn stærsti skemmtigarður Evrópu. Illa Fantasia vatnagarðurinn er rétt hjá Barcelona, og það tekur einnig um klukkutíma að keyra þangað.
Allt um kring eru frábærar göngu-, hlaupa- og hjólaleiðir, ýmiskonar vatnasport er í boði á svæðinu og fyrir þau sem kjósa slökun þá eru nokkrar heilsulindir með nudd- snyrtimeðferðir og jógatíma.
Kynntu þér Sitges og njóttu veðurblíðunnar í fallegu umhverfi.