Vatnajökull er einstakur
Það er alltaf jafn magnað að sjá Vatnajökul, stærsta jökul Evrópu, þar sem hann steypist niður snarbrattar fjallshlíðarnar á suðausturlandinu. Þá sjón þekkja allir Íslendingar enda gnæfir Vatnajökull yfir hringveginum frá Öræfum austur í Hornafjörð.
Jökullinn þekur 8% af flatarmáli Íslands og er heilir 1000 metrar á þykkt þar sem hann er þykkastur. Ísmagnið er slíkt að væri dreift úr jöklinum yfir allt landið, væri 30 metra þykkt íslag yfir öllu. Við erum heppin að hann skuli láta sér átta prósentin duga.
Vatnajökull og umhverfi hans mynda Vatnajökulsþjóðgarð, stærsta þjóðgarð í Evrópu, sem kom á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í júlí 2019. Landslag þjóðgarðsins einkennist af því að hafa verið mótað af stórkostlegum náttúruöflum: ís, jarðskorpuhreyfingum og rofi vatns og vinda.