Umhverfismál
Umhverfisáhrif af flugstarfsemi eins og öðrum samgöngum eru töluverð. Icelandair leggur áherslu á að lágmarka umhverfisáhrif af starfsemi félagsins meðal annars með því að minnka útblástur, vernda náttúruauðlindir, nýta endurnýjanlega orku og endurnýtanleg hráefni.
Lögð er áhersla á sjálfbæran vöxt félagsins en til þess þarf að huga að áhrifum starfseminnar á umhverfið, bæði staðbundið og alþjóðlega. Icelandair er þátttakandi í umhverfishópum ýmissa félaga, svo sem IATA og Airlines for Europe (A4E). Icelandair er þátttakandi í verkefninu Ábyrg ferðaþjónusta ásamt yfir 300 fyrirtækjum með það að markmiði að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir.