Lega Íslands mitt á milli meginlands Evrópu og Norður-Ameríku er lykillinn að leiðakerfi Icelandair. Ísland er miðpunktur allra áætlunarflugleiða og tengiflug fer á loft þaðan til áfangastaða í austri og vestri.
Hagkvæmar og afkastamiklar Boeing flugvélar í bland við nýjar Airbus flugvélar, sem við tökum í notkun veturinn 2024-2025, henta sérstaklega vel í þessu leiðakerfi.
Flotinn okkar af De Havilland Canada flugvélum, kallaðar „Dash“ í daglegu tali, flýgur innanlands, til Grænlands og til Færeyja.
Ein áhrifaríkasta leiðin fyrir flugfélög til að minnka kolefnissporið sitt eins og sakir standa er að endurnýja flugvélaflotann. Undanfarinn áratug höfum við fjárfest í sparneytnum Boeing 737-MAX flugvélum og við tökum á móti fyrstu Airbus A321LR vélinni af fjórum í desember 2024.
Nýlega undirrituðum við kaupsamning á Airbus 321XLR flugvélum. Fyrsta vélin af þeirri gerð er væntanleg til landsins árið 2029 og við munum smám saman skipta nýju vélunum út fyrir Boeing 757 vélarnar. Airbus flugvélarnar eru sparneytnari og losa minni koltvísýring en eldri gerðir flugvéla.
Grunnlitirnir okkar eru miðnæturblár og hvítur. Flugvélarnar okkar bera fimm mismunandi liti á stélinu (norðurljósabláan, blárauðan, himinbláan, gulan og grænan), sem hver fyrir sig er innblásinn af íslenskri náttúru og þá sérstaklega norðurljósunum.
Því til viðbótar höfum við undanfarinn áratug skreytt sumar flugvélarnar okkar sérstaklega til að fagna tilteknum áföngum og beina sjónum að íslenskri náttúru.